Sunday, November 7, 2010

Kettir Mirikitani

Mirikitani (til vinstri) og Hattendorf
The Cats of Mirikitani er heimildarmynd sem fjallar um kynni leikstjórans Lindu Hattendorf af áttræðum listamanni, Jimmy Mirikitani, sem sefur á götunni í New York. Hattendorf býr nálægt Mirikitani og hittast þau af og til frá ársbyrjun 2001. Breyting verður á vinskap þeirra í september þetta sama ár, ráðist er á tvíburaturnana nokkrum húsaröðum frá og í kjölfarið býður leikstjórinn manninum að búa í íbúðinni sinni. Í framhaldi af þessu fá áhorfendur tækifæri til þess að kynnast ótrúlegri sögu hins aldraða listmanns.

Í ljós kemur að ævi Mirikitani er hrikaleg harmsaga. Eftir að hafa fæðst í Kaliforníu flutti hann til Hiroshima, sem var borg ættingja hans, en átján ára gamall flýgur hann aftur til Bandaríkjanna ásamt systur sinni í von um að slá í gegn sem listamaður. Í kjölfar árásar Japana á Pearl Harbor er Mirikitani neyddur í búðir fyrir Japani, sviptur ríkisborgararétt sínum og klippt á samband hans
Teikning Mirikitani af kyrrsetningarbúðunum
við systur sína. Til að eyðileggja líf Mirikitani enn frekar er Hiroshima sprengd í loft upp ásamt flestum ættingjum hans. Að seinna stríði loknu tekur við erfitt líf þar sem Mirikitani vinnur fyrir sér í ólíkum störfum (meðal annars sem einkakokkur Jackson Pollock) áður en hann endar á götunni eins og við sjáum hann í upphafi myndarinnar.

Í raun er myndin hálfgerð þroskasaga sem er merkilegt því aðalpersónan er 80 ára manneskja. Við sjáum samt sem áður gríðarlegar breytingar á manninum; í byrjun myndarinnar er Mirikitani vonlaus flækingur sem virðist aldrei munu ná sambandi við neinn. Í lokin er hann hins vegar búinn að ná fótfestu sem listamaður (og kennari á eigin námskeiði), ásamt því að hafa loksins náð að gera upp fortíð sína.Þessu öllu náði maðurinn með því að gefa ekki upp á bátinn drauma sína uum listina. Boðskapur myndarinnar um að gefast ekki upp nær samt til allra áhorfenda myndarinnar hvort sem þeir eru listamenn eða ekki.

Það sem mér fannst einna merkilegast við myndina er hversu tilviljanakennd atburðarásin er. Þegar Hattendorf ákvað fyrst að festa Mirikitani á filmu óraði hana ekki fyrir að Mirikitani hefði einhverja sögu að segja eða að um væri að ræða einhvers konar efnivið í kvikmynd. Smám saman tók leikstjórinn ástfóstri við manninn; ásamt því að hjálpa honum að finna íbúð og koma honum inn í velferðarkerfið tókst henni að kynna umheiminum fyrir list hans. Það var mjög heppilegt að til væru upptökur af fyrstu fundum leikstjórans og Mirikitani því annars hefði verið ómögulegt að gera þessa mynd.


Annað áhugavert atriði var hvernig hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin voru tvinnaðar inn í myndina. Þegar greint var frá aukinni andúð Bandaríkjamanna í garð araba virtist Mirikitani
Mynd frá 89 ára afmæli hans í fyrra
endurupplifa fortíð sína, honum fannst eins og enn og aftur væri verið að sýna ástæðulausa þröngsýni í garð útlendinga eins og í seinni heimsstyrjöld. Þetta atriði var algjört aukaatriði í myndinni sem heppnaðist samt vel.

Þegar ég hafði lokið við að horfa á þessa mynd langaði mig strax að vita hvort Mirikitani væri enn á lífi og hvernig ferill hans líti út í dag. Ég sá ekki annað en að maðurinn (sem er 90 ára) lifði enn góðu lífi og að sýningar á verkum hans væru opnaðar af og til. Ég ætla að ljúka þessum pistli með myndum af nokkrum verkum hans: