Monday, September 20, 2010

Maraþonmynd

Miðvikudaginn 8. september hittumst ég, Óli, Urður og Halla til þess að taka upp fyrstu myndina í kúrsinum. Myndin átti bæði að vera tekin upp og unnin í myndavélinni sem takmarkaði okkur aðeins en gerði verkefnið þó auðveldara og jafnvel skemmtilegra.

Okkur fannst mikilvægt að við myndum öll fjögur koma fyrir í myndinni. Illa gekk í byrjun að koma því í verk; reyndar áttum við erfitt með að koma saman handriti eða hreinlega hugmynd af nokkurri sort. Við hittumst tveimur dögum fyrir tökudag til að skrifa en útkoman var vonlaus. Þetta reddaðist að vísu næsta dag og á miðvikudeginum vorum við tilbúin fyrir það að taka upp.

Mun lengri tími fór í verkefnið en við áttum von á. Við lögðum lokahönd á myndina í kringum tvö um nóttina sem þýðir að um tíu tímar fóru í þetta á miðvikudeginum. Ég held að seinni hluti myndarinnar sýni þetta vel enda sýndist mér hann hann ekki líta jafn vel út og fyrstu mínúturnar. Á þeim tímapunkti langaði okkur til að ljúka þessu af sem fyrst og eyddum ekki tíma í margar tökur. Það er því alveg ljóst að sumt hefði mátt betur fara en ég er þó sáttur við myndina í heild sinni.

Það var áhugavert að sjá hinar myndinar. Mér fannst ég oft sjá mjög netta tækni við skot og klippingu hjá hinum sem við vorum kannski ekki með. Samanborið við hinar myndinar sýndist mér að okkar verkefni innihéldi fleiri leikin atriði sem sást á miklum fjölda textaspjalda.

Thursday, September 16, 2010

Just cut them up like regular chickens . . .


David Lynch
Ég er ekki hrifinn af flestu sem ég hef séð eftir David Lynch. The Elephant Man fannst mér að vísu ágæt, enda kannski ‘hefðbundnasta’ verk hans, og þættirnir Twin Peaks sömuleiðis – en súrrealísku myndirnar hans höfða ekki til mín. Dæmi um það er Inland Empire, að mínu mati óaðgengileg og óskiljanleg kvikmynd sem ég átti erfitt með að klára. Myndinni var þó tekið mjög vel af gagnrýnendum og ég virðist vera einn af fáum með þessar skoðanir.

Þrátt fyrir þetta allt fannst mér Eraserhead stórkostleg en það er fyrsta mynd Lynch í fullri lengd. Ég hef lesið að myndin hafi tekið sex ár í framleiðslu og það með mjög takmörkuðu fjármagni, um tíu þúsund dollara. Samanborið við dýrar stúdíómyndir með reyndum framleiðendum og leikstjórum er því ótrúlegt hvað Eraserhead er góð; verk þar sem hreinlega allt tekst sem lagt er upp með.

Myndin gerist í eyðilegri iðnaðarborg og fjallar um prentara, Henry, sem uppgötvar að konan hans er nýbúin að fæða. Eftir vandræðalegan kvöldmat með tengdaforeldrunum kemur í ljós að afkvæmið er ekki barn heldur lítið skrímsli sem Henry þarf að passa næstu nótt. Á meðan því stendur hittir hann alls konar undarlegar persónur áður en myndin endar á óljósan og súrrealískan hátt með morði Henrys á skrímslinu.


Allt andrúmsloft Eraserhead er þrungið draumkenndri stemningu; einn atburður leiðir þvingað til hins næsta án þess að hinn passívi og fámáli Henry fái nokkuð um það að segja. Mér fannst þannig að aðalpersónan væri frekar athugandi en þátttakandi í myndinni, með öðrum orðum valdalaus á svipaðan hátt og við þegar okkur dreymir. Enn fremur gerast flest atriðin í þröngu rými og þannig virðist engin leið er að flýja eða sleppa undan atburðunum. Myndin er tekin upp í svarthvítu yfir nótt sem eykur mikið á kuldann og dapurleikann.

Auðvitað myndu öll þess atriði ekki endilega skapa góða mynd en saman mynda þau mjög sérstakt og hrífandi andrúmsloft. Í samanburði við til dæmis Inland Empire, sem hafði líka áhugaverða stemningu, þá fannst mér Eraserhead mun skemmtilegri, kannski vegna þess að þrátt fyrir allan súrealismann var samt gegnheill söguþráður út myndina.

Pete Martell

Að lokum vil ég nefna eitt sem ég rakst á og fannst mjög áhugavert þegar ég var að lesa um kvikmyndina. Aðalleikarinn, Jack Nance, lék engan annan en Pete í Twin Peaks þáttunum! Þegar ég rýndi í mynd af honum sá ég á endanum að þetta er sama manneskjan. Nance lék í mörgum öðrum verkum eftir Lynch, eins og Dune og Blue Velvet, en hlutverkin verða víst ekki fleiri því að maðurinn var myrtur á dularfullan hátt fyrir fjórtán árum.

Ég vil benda á að hægt er að lesa mikið um þetta morð í þessari grein: http://www.findadeath.com/Deceased/n/Jack%20Nance/jack_nance.htm

Sverrir