Monday, January 31, 2011

Tími og tilviljun

Eftirfarandi færsla er stutt hugleiðing um greinina No coincidence, no story eftir David Bordwell.

Tilviljun?
Í greininni sem er til umfjöllunar er fjallað um áhrif tilviljana á söguþráð kvikmynda og tegunda af skáldskap. Taldar eru upp kvikmyndir af öllum tegundum (bæði annars flokks verk og verðlaunamyndir) sem eiga það sameiginlegt að nota áhrif tilviljanna á einum stað eða öðrum. Höfundur veltir í kjölfarið fyrir sér hvers vegna svona margar kvikmyndir nota tilviljanir og ólíklegar atburðarásir til þess að þoka söguþræðinum áfram, hvenær það er réttlætanlegt og hvers vegna það er oft litið niður á svoleiðis taktík. Í lokin minnist höfundur svo á leiðir til þess að láta tilviljanir hljóma trúverðugri gagnvart áhorfendum og hvernig hin svokölluðu örlög geta einnig gegnt veigamiklu hlutverki.

Eitt stærsta atriðið sem kemur fram í pistli Bordwells er að orsakatengsl í söguþræði eru nauðsynleg fyrir áhorfandann til þess að hann geti áætlað hvað gerist næst. Að öðrum kosti minnkar hluttekning áhorfandans með persónum myndarinnar og áhuginn á myndinni sjálfri minnkar. Einnig tekur hann fram að ef orsakatengsl eru fjarlægð algerlega og allur söguþráðurinn samanstendur af tilviljanakenndum atburðum stendur ekki eftir nein saga og þar af leiðandi ekki nein kvikmynd (sbr. nafn pistilsins). Þetta hljómar mjög rökrétt hjá höfundi og því leiðir að handritshöfundar verða að takmarka sig ef þeir ætla að nota tilviljanir á einhverjum tímapunkti. [Ath. þetta á ekki við um Monty Python.]

And now for something completely different!
Annað atriði sem mér fannst áhugavert er að það skiptir máli á hvaða tímapunkti tilviljunin kemur fram. Ef tilviljanir eru notaðar til þess að leysa þær hindranir sem aðalpersónan hefur þurft að glíma við eru áhorfendur síður líklegir til þess að fyrirgefa það. Hér held ég að höfundur sé að tala um deus ex machina þótt hann noti að vísu ekki þetta hugtak í pistlinum. Aftur á móti eru tilviljanir ásættanlegar þegar þær eru notaðar í byrjun myndar til að koma af stað átökum, eða þegar þær hafa verið vandlega undirbúnar. Dæmi um það er þegar tvær manneskjur hittast af tilviljun. Ef miklu púðri er eitt í að sýna manneskjurnar sitt í hvoru lagi áður en hittingurinn á sér stað þá lítur út fyrir að það sé eðlilegt að brautir þeirra skyldu skerast. Ef manneskjurnar hittast hins vegar skyndilega og án þess háttar undirbúnings þá getur myndin virkað óraunsærri fyrir vikið, jafnvel þótt viðburðurinn sé jafn ólíklegur í bæði skiptin.

Of all the gin joints, in all the towns, in all the world ...
 
Bordwell bendir einnig á eina snjalla aðferð til þess að lágmarka skaðann af því að beita áhrifum tilviljunarinnar. Ef einhver persóna í myndinni minnist á hversu ólíklegir atburðirnir voru þá eru áhorfendur líklegri til þess að samþykkja það. Frábært dæmi um þetta er í Casablanca (sjá mynd). Rómantískar myndir hafa líka fundið leið til þess að afsaka tilviljanir, þ.e. að benda á að örlögin hljóti einfaldlega að hafa haft hönd í bagga.

Umfjöllun Bordwells um þetta efni er langt frá því að vera tæmandi og í raun snertir hann áðeins toppinn á ísjakanum í pistli sínum. Þetta virðist þó vera áhugavert viðfangsefni sem hægt væri að skrifa langar ritgerðir um.

Sunday, January 30, 2011

Svefnleysi

Hin upprunalega Insomnia er norsk kvikmynd frá 1997 sem fjallar um morðrannsókn í þorpinu Tromsø fyrir norðan heimskautsbaug. 17 ára stelpa er myrt og sænski sérfræðingurinn Jonas Engström er kallaður til ásamt norskum félaga sínum. Jonas er ekki vanur að vinna í miðnætursólinni og þjáist af algjöru svefnleysi. Í kjölfarið verða honum á hrikaleg mistök; hann skýtur norska kollega sinn í brjóstið og notar morðingjann sem blóraböggul. Þetta reynist erfitt þar sem morðinginn veit hvað gerðist, Jonas til mikilla óþæginda.

Jonas Engström
Eitt af helstu markmiðum leikstjórans var að skapa neo-noir mynd með ljós í staðinn fyrir myrkur sem aðaldriftkraft sögunnar. Þetta gekk algjörlega upp. Sjálfum fannst mér söguþráður myndarinnar fyrirfram hljóma mjög áhugaverður en það sem gerði myndina frábæra var túlkun Stellan Skarsgård1 á Jonas. Honum tókst vel að leika mann sem er að fara yfir um á mjög lúmskan hátt.

Þegar Insomnia kom út heillaði hún kvikmyndaheiminn svo mikið að fimm árum síðar var hún endurgerð af engum öðrum en Christopher Nolan (með Al Pacino og Robin Williams í aðalhlutverkum!) Endurgerðin gerist í Alaska en er svipuð og sú upprunalega fyrir utan einn grundvallarmun; í upprunalegu myndinni er aðalpersónan Jonas vond manneskja í gegn og algjör andhetja en í endurgerðinni er hann (Al Pacino) hins vegar góð manneskja í grunninn sem leiðist út í vonlausar aðstæður. Kannski var litið á þetta sem nauðsynlega breytingu til að ná til stærri markaðar áhorfenda.


Ég er venjulega ekkert hrifnari af bíómyndum sem koma frá öðrum stöðum en Hollywood. Hvað varðar Insomnia og endurgerðina var eitthvað öðruvísi. Í Hollywood útgáfunni var Al Pacino auðvitað fagmannlegur eins og alltaf en sænski leikarinn lék þetta á allt öðruvísi hátt (og að mínu mati var hann betri). Áhrif svefnleysisins voru ekki jafn augljós á honum og persónan virkaði á yfirborðinu í góðu ástandi, hann hækkaði aldrei róminn og var mjög yfirvegaður alla myndina. Samt sást greinilega að eitthvað var ekki í lagi hjá honum. Mér leist illa á marga aðra hluti í bandarísku úgáfunni, handritið og persónurnar voru margar miklu klisjukenndari. Þegar maður hugsar um myndina eftir á án þess að bera saman við norsku útgáfuna þá stendur ósköp lítið eftir í raun og veru - þótt það hafi samt ekki neitt verið beinlínis að myndinni. Þetta átti allavega alls ekki neitt skylt við neina neo-noir mynd eins og upphaflega myndin.

Creepy!
Auðvitað var endurgerðin samt mjög flott mynd enda big-budget verk með fyrsta flokks kvikmyndastjörnum. Það er samt bara eitt atriði sem mér finnst að hún hafi klárlega fram yfir þá upprunalegu; morðinginn í bandarísku (Robin Williams) er óhugnalegri og meira hrollvekjandi en í þeirri norsku. Þetta er kannski vegna þess hversu kunnuglegur Robin Williams er áhorfendum og það hefur líka áhrif að sjá hann í svona óvenjulegu hlutverki.2 Fæstir kannast hins vegar við norska leikarann (allavega ekki ég) og hann fær ekki svo margar mínútur á skjánum til að sanna sig hvort eð er.

Eftir stendur að hin upprunalega Insomnia er mjög áhugavert verk sem ég mæli með á meðan endurgerðin er ekki jafn spennandi og kannski frekar fyrir hörðustu aðdáendur Christopher Nolan.

Trailer fyrir 1997 útgáfuna:



1   Þessi Skarsgård hefur líka leikið í Hollywood, ég sá á imdb að hann lék líka t.d. einhvern prófessor í Good Will Hunting þótt ég muni reyndar ekkert eftir honum.
2   Á þessum tíma var Robin Williams að fikra sig áfram í óvenjulegum hlutverkum, sbr. floppið Death to Smoochy sem kom út sama ár.