David Lynch |
Þrátt fyrir þetta allt fannst mér Eraserhead stórkostleg en það er fyrsta mynd Lynch í fullri lengd. Ég hef lesið að myndin hafi tekið sex ár í framleiðslu og það með mjög takmörkuðu fjármagni, um tíu þúsund dollara. Samanborið við dýrar stúdíómyndir með reyndum framleiðendum og leikstjórum er því ótrúlegt hvað Eraserhead er góð; verk þar sem hreinlega allt tekst sem lagt er upp með.
Myndin gerist í eyðilegri iðnaðarborg og fjallar um prentara, Henry, sem uppgötvar að konan hans er nýbúin að fæða. Eftir vandræðalegan kvöldmat með tengdaforeldrunum kemur í ljós að afkvæmið er ekki barn heldur lítið skrímsli sem Henry þarf að passa næstu nótt. Á meðan því stendur hittir hann alls konar undarlegar persónur áður en myndin endar á óljósan og súrrealískan hátt með morði Henrys á skrímslinu.
Allt andrúmsloft Eraserhead er þrungið draumkenndri stemningu; einn atburður leiðir þvingað til hins næsta án þess að hinn passívi og fámáli Henry fái nokkuð um það að segja. Mér fannst þannig að aðalpersónan væri frekar athugandi en þátttakandi í myndinni, með öðrum orðum valdalaus á svipaðan hátt og við þegar okkur dreymir. Enn fremur gerast flest atriðin í þröngu rými og þannig virðist engin leið er að flýja eða sleppa undan atburðunum. Myndin er tekin upp í svarthvítu yfir nótt sem eykur mikið á kuldann og dapurleikann.
Auðvitað myndu öll þess atriði ekki endilega skapa góða mynd en saman mynda þau mjög sérstakt og hrífandi andrúmsloft. Í samanburði við til dæmis Inland Empire, sem hafði líka áhugaverða stemningu, þá fannst mér Eraserhead mun skemmtilegri, kannski vegna þess að þrátt fyrir allan súrealismann var samt gegnheill söguþráður út myndina.
Pete Martell |
Að lokum vil ég nefna eitt sem ég rakst á og fannst mjög áhugavert þegar ég var að lesa um kvikmyndina. Aðalleikarinn, Jack Nance, lék engan annan en Pete í Twin Peaks þáttunum! Þegar ég rýndi í mynd af honum sá ég á endanum að þetta er sama manneskjan. Nance lék í mörgum öðrum verkum eftir Lynch, eins og Dune og Blue Velvet, en hlutverkin verða víst ekki fleiri því að maðurinn var myrtur á dularfullan hátt fyrir fjórtán árum.
Ég vil benda á að hægt er að lesa mikið um þetta morð í þessari grein: http://www.findadeath.com/Deceased/n/Jack%20Nance/jack_nance.htm
Sverrir
Inland Empire er keppnis. Mulholland Drive er hins vegar einn af hápunktum kvikmyndasögunnar.
ReplyDeleteBlue Velvet er góð líka, og reyndar mjög aðgengileg mynd.
Fín færsla. 6 stig.
ReplyDeleteÉg hálfskammast mín að segja frá þessu, en ég hef enn ekki séð alla Eraserhead. Ég man óljóst eftir að hafa sofnað yfir henni fyrir rúmum áratug og af einhverri ástæðu hef ég ekki gert aðra tilraun við hana síðan. Þó held ég mikið upp á Lynch, og hafði m.a. lúmskt gaman af Inland Empire.