Friday, August 27, 2010

Minnisstæðar kvikmyndir

Ég hef aldrei átt mér uppáhalds kvikmynd. Það sem mér finnst gott eitt árið breytist á því næsta og þannig hefur það líklega alltaf verið. Í þessum pistli hef ég því valið að skrifa um þrjár myndir sem mér finnast minnisstæðar og höfðu einhvers konar áhrif á mig.

Fargo

Jerry Lundegaard er stórskuldugur og ráðþrota eiginmaður sem ákveður að fjárkúga tengdaföður sinn. Hann ræður tvo vonlausa glæpamenn til þess að ræna konu sinni og krefjast lausnargjalds – en allt fer á versta veg og áður en yfir lýkur liggja sjö í valnum.
    Sterkasti punktur Fargo er líklega frammistaða aðalleikaranna sem hafa flestir leikið í fleiri Coen-myndum. Umhverfi myndarinnar hafði þó ennþá meiri áhrif á mig. Þótt myndin hafi verið tekin upp í lit þá minnir allt á gamaldags noir-mynd – kannski gerir napur og snjóhvítur veturinn þetta að verkum. Aðalpersónurnar tala allar með heillandi, jafnvel norrænum hreimi og hafa nöfn eins og Lundegaard og Gustafson.
    Fargo er kvikmynd sem erfitt er að flokka. Hægt er að líta svo á að hún sé svört gamanmynd, glæpamynd, thriller eða blanda af þessu öllu. Mér finnst hins vegar að myndin hefji sig einfaldlega yfir alla þessa stimpla; Fargo stendur á eigin fótum bæði sem nútímameistaraverk og sem besta mynd Coen-leikstjóranna.

Troll 2

Árið 1990 ákvað ítalski leikstjórinn Fragasso að framleiða hryllingsmynd í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að skilja ekki ensku fékk hann nokkra áhugaleikara til liðs við sig, keypti þýðingu á handritinu og fékk lánaða heimatilbúna búninga og leikmuni. Útkoman var fyndnasta hryllingsmynd sem ég hef nokkurn tímann séð.
    Söguþráðurinn fjallar í stuttu máli um fjölskyldu í frí í smábænum Nilbog. Fljótt kemur í ljós að íbúar þorpsins eru ekki allir eins og þeir eru séðir; þeir geta breytt sér í svartálfa sem éta fólk með því að breyta því í grænmeti. Með hjálp látins afa tekst fjölskyldunni að koma sér undan en ekki án þessa að úthella bæði tárum og blóði.
    Troll 2 hefur á síðustu árum eignast marga aðdáendur og er orðin cult classic í hnotskurn. Einlæg viðleitni aðstandenda myndarinnar til þess að gera trúverðuga hryllingsmynd og fjölmörg óviljandi grínatriði svipar nokkuð til kvikmynda Ed Wood – en myndin er að mínu mati ennþá skemmtilegri en jafnvel bestu verk hans.


The Last Picture Show

The Last Picture Show er einhvers konar þroskasaga nokkurra unglinga í smábæ í Texas á sjötta áratugnum. Hvernig þau þroskast og hvað þau læra á þessu ári sem myndin sýnir er þó óljóst; það er lítið við að vera í bænum, fólk er á förum og helsti samkomustaður ungmennanna, kvikmyndahúsið, er við það að loka.
    Þótt ég hafi séð myndina fyrir tveimur árum man ég lítið eftir söguþræðinum. Ég man hins vegar vel eftir svart-hvítu umhverfinu í deyjandi og einangraðu þorpinu ásamt niðurdregnum íbúum þess. Fyrir mér snýst myndin í raun aðeins um einhvers konar andrúmsloft – líf fólks sem virðist ekki hafa neina framtíð.
    The Last Picture Show er fyrsta myndin sem ég hef séð með leikaranum Jeff Bridges. Frammistaða hans sem íþróttamaðurinn Duane er virkilega einlæg og ein af hápunktum myndarinnar. Jeff Bridges hefur síðan orðið einn af mínum uppáhalds leikurum, sérstaklega eftir frammistöðu sína í Crazy Heart og The Big Lebowski.

1 comment:

  1. Fín færsla, en ég hefði viljað sjá smá myndskreytingu, t.d. screenshot úr þessum myndum. 4 stig.

    Ég hef ekki séð Troll 2, en ég sá einhverja umfjöllun um hana um daginn þess efnis að þetta væri versta mynd allra tíma.

    Ég held ég hafi heldur ekki séð The Last Picture Show í heild sinni, heldur bara smábúta þegar ég hef rekist á hana á TCM (þegar ég var ennþá með þá stöð). Það er skrýtið hvað leikstjórinn, Peter Bogdanovich, hefur horfið af sjónarsviðinu. Eftir að þessi mynd kom út var hann heitasti ungi leikstjórinn í Hollywood...

    ReplyDelete