Monday, October 11, 2010

Að RIFF loknu

Ég hefði gefið mikið fyrir að geta séð RIFF á öðrum tíma. Vegna anna í þessari viku náði ég náði aðeins að sjá sex myndir á hátíðinni og missti líka af sundviðburðinum í Sundhöllinni (miðarnir voru uppseldir!). Ennþá súrara fannst mér að missa af myndinni Investigation of a Citizen above Suspicion sem mér leist best á fyrir hátíð. Hún hljómaði mjög spennandi og ég vona að ég muni geta séð hana einhvern tímann seinna.

Fyrir utan Brim fannst mér mest koma til myndanna 3 Backyards og Down by Law sem ég ætla að blogga um.  Fyrirlesturinn sem við áhorfendurnir á Forest fengum frá leikstjóranum, Benedek Fliegauf, verður staðgengill viðburðar hjá mér og ég mun því skrifa um hann einnig.

3 Backyards


3 Backyards fjallar um þrjár manneskjur í dæmigerðu úthverfi á Long Island í Bandaríkjunum. Skoðaðar eru þrjár aðskildar sögur sem tengjast í sjálfu sér ekki neitt. Miðaldra viðskiptamaður
Viðskiptamaðurinn
kaupir sér flugmiða úr bænum eftir rifrildi við konuna en kemst aldrei af stað vegna vélarbilunar. Lítil stelpa missir af skólavagninum, heldur fótgangandi af stað og hittir á leiðinni týnda hunda og furðufugla. Húsmóðir býðst til þess að kynna dægurstjörnu úr næsta húsi fyrir hverfinu en þau eiga litla samleið og allt fer úr handaskolunum.
Þrátt fyrir að sögurnar í myndinni séu mjög ólíkar og skarist aldrei eru þær svipaðar að nokkru leyti. Allar persónurnar fara að heiman, lenda í einhverjum upplifunum, taka út þroska og snúa aftur heim. Á meðan viðskiptamaðurinn er í útlegð frá heimili sínu rekst hann endurtekið á svarta

Litla stelpan sem týndi skartgripnum
konu í atvinnuleit. Upplifun mannsins af erfiðleikum þessarar konu – sem að lokum deyr í bílslysi – virðist fá hann til að átta sig á stöðunni og snúa aftur heim til konunnar. Litla stelpan, sem týndi skartgrip móður sinnar, tekst að endurheimta hann að skóladegi loknum úr höndum undarlegs hundaníðings áður en hún snýr glöð í bragði heim til sín. Í þriðju sögunni, sem mér fannst langbest útfærð í myndinni, leggur húsmóðirin af stað í óbærilega bílferð með leikkonu sem gefur henni lítinn gaum. Þegar húsmóðirin snýr loksins heim er hún að vísu grátandi en hefur áttað sig betur á samskiptum við annað fólk.

Fyrstur tvær sögurnar sem ég rakti eru ekki mjög eftirminnilegar; þrátt fyrir að vera þroskasögur vantar smá kjöt á beinin hvað varðar söguþráð. Þrátt fyrir þetta var um að ræða áhugavert efni og það var ekki leiðinlegt að fylgjast með þessu (ólíkt sumu sem ég sá á RIFF), kannski út af
Edie Falco
fallegu umhverfinu og tónlistinni. Sagan af bílferð húsmóðurinnar og leikkonunnar var þó öllu minnisstæðari. Einhver penni hjá tímaritinu Slate lýsti þessu sem 'a keen study of the relationship between celebrity and spectator'. Þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð þá nær húsmóðirin alls engri tengingu við stjörnuna. Við sjáum í gegnum myndina að konan gæti ekki haft meiri áhuga á því að tengjast leikkonunni og ná þannig að komast inni undir í heim fræga fólksins. Hins vegar hefur stjarnan engan áhuga á að opna sig fyrir einhverri ókunnugri manneskju og húsmóðirin verður hrikalega þung og vonsvikin. Leikkonan sem túlkaði þessa konu heitir Edie Falco og frammistaða hennar var líklega sú besta sem ég sá á hátíðinni.

Mér fannst myndin í heildina nokkuð góð þótt það hefði að vísu ekki verið neitt áfall að missa af henni. Nokkur atriði í myndinni voru þó hreinlega framúrskarandi.

Hér má sjá viðtal við leikstjórann sem var tekið upp þegar myndin var sýnd á Sundance-hátíðinni í Bandaríkjunum.



Ég mun skrifa um hinar myndirnar á morgun.

1 comment: