Fyrir nokkrum vikum var fjallað stuttlega um kvikmyndir með óvirkum aðalpersónum. Siggi kennari sagði eitthvað í þeim dúr að erfitt væri að gera slíkar myndir en gott dæmi væri samt kvikmyndin Garden State frá 2004. Þar sem ég átti myndina á diski kíkti ég á hana um daginn.
Andrew Largman (kallaður Large) er ungur maður sem býr einn í íbúð í Los Angeles. Við sjáum strax að strákurinn er hálfgert tilfelli enda virkar hann sinnulaus um allt. Þegar pabbi Large hringir einn daginn og segir honum að móðir hans hafi drukknað í baði lætur Large sér fátt um finnast. Hann ákveður þó að taka flugið heim til New Jersey til þess að mæta í jarðarför móður sinnar.
Áhorfendur komast fljótlega að því að ástand Large á sér skýringar. Þegar hann var níu ára strákur henti hann móður sinni óvart á þvottavél sem ollli því að hún varð lömuð fyrir neðan háls fyrir lífstíð. Faðir Large kenndi syni sínum alla tíð um slysið og notfærði sér stöðu sína sem læknir til þess að setja strákinn á líthíum-kúrs. Sautján árum síðar tekur Large ennþá þessi lyf og finnur ekki fyrir neinum tilfinningum að eigin sögn, hvorki sársauka né vellíðan, aðeins stöðugum sljóleika.
Þegar Large fer aftur heim til New Jersey tekur líf hans breytingum. Hann skilur lyfin sín eftir í L.A. og í jarðarförinni hittir hann gömlu vini síni aftur. Loksins kynnist hann svo stúlku og myndin tekur stefnu sem flestir ættu að kannast við.
Garden State var fyrsta kvikmynd leikstjórans Zach Braff (sem er þekktast fyrir leik sinn í þáttunum Scrubs) sem lék einnig aðalhlutverkið. Myndin hlaut nokkuð góða dóma þegar hún kom út og hefur verið borin saman við The Graduate (sem var líka þroskasaga passívrar söguhetju) og The Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Myndin er samt alls ekki fullkomin og mér fannst eins og hún lofaði meiru í byrjun, en félli svo í einhverja formúlu eftir því sem leið á myndina.
Það sem mér fannst best við myndina voru öll litlu smáatriðin eða "visual gags" sem komu fram víða, t.d. diplóman sem var hengd upp á loftið hjá lækninum eða að liturinn á skyrtu Large skyldi passa við veggfóðrið (sjá dæmi í myndum). Þótt myndin væri að mestu leyti dramatísk þá lyftu öll þessari atriði myndinni upp, þetta minnti svolítið á Srubs.
Sumir gagnrýnendur gagnrýndu myndina fyrir að vera klisjukennd á köflum og fyrir að færa fátt nýtt fram á sjónarsviðið. Þessi viðhorf eru skiljanleg. Þrátt fyrir allt finnst mér örlítið dapurlegt að Zach skuli ekki hafa leikstýrt fleirum myndum enda lofaði þessi mynd mjög góðu upp á framhaldið.
Gervitrailer fyrir myndina sem mér fannst mjög fyndinn:
Skemmtilegur mash-up trailer.
ReplyDeleteGóð færsla. 6 stig.