Kvikmyndagerð í Menntaskólanum í Reykjavík 2010-2011
Friday, December 3, 2010
High Noon
Í tíma um daginn sýndi Siggi kennari atriði úr kvikmyndinni High Noon þar sem klukkur voru í aðalhlutverki. Siggi sagði að þetta væri sjaldgæf leið til þess að byggja upp spennu í kvikmynd, m.a. vegna þess hve erfitt væri að nota klukkur í klippingu. Mér fannst þetta áhugavert og þegar ég sá hvað hvað myndin hefur hlotið góða dóma ákvað að kíkja á hana um síðustu helgi.
Will Kane (Gary Cooper) að gifta sig
High Noon er vestri sem fjallar um fógetann Will Kane sem býr í litlu smáþorpi í New Mexico. Sama dag og Will ætlar að gifta sig og leggja skóna á hilluna fréttir hann að gamall óvinur, Frank Miller, hafi verið náðaður úr fangelsi, sé á leið í bæinn og leiti hefnda. Við þessar fréttir skapast togstreita hjá Will. Ætti hann að yfirgefa þorpið og forða eigin skinni eða eiga á hættu að vera myrtur?
Allir íbúar þorpsins, jafnvel eiginkonan Wills, ráðleggja honum að flýja. Will finnst hins vegar á honum sé ekki stætt á öðru en að vera hugrakkur og mæta Miller. Hann ákveður því að leita stuðnings eins margra félaga sinna
Will grætur. Sjaldséð í vestrum!
og hann getur og vera viðbúinn því þegar Miller kemur í þorpið með hádegislestinni. Hins vegar kemur smátt og smátt í ljós að þorpið samanstendur af heiglum sem eru ekki tilbúnir að verja gamla fógetann sinn. Með hverri mínútu sem líður styttist í komu Miller og örvænting Franks eykst. Andrúmsloftið verður enn spennuríkara með því að sýna tifandi klukkur við hvert tækifæri, eins og ég minntist á áðan.
Will einn og yfirgefinn
High Noon (eða Um hádegi eins og hún heitir á imdb) hefur verið túlkuð sem táknsaga fyrir McCarthy-tímabilið þar sem leikstjórar og handritshöfundar í Hollywood mættu ásökunum, ímynduðum eða raunverulegum, um að vera kommúnistar eða tengjast sovéska kommúnistaflokknum á einhvern hátt. Þannig táknuðu íbúar þorpsins þá sem vitnuðu fyrir HUAC (nefnd sem hafði eftirlit með óamerískri starfsemi) og sviku kollega sína í Hollywood. Einnig hefur verið litið svo á myndina sem táknsögu fyrir þátttöku Bandaríkjana í Kóreustríðinu, sem mér finnst aðeins leiðinlegri kenning.
Uppáhaldsmynd Bill Clintons
Þrátt fyrir að í dag sé víða litið á High Noon sem einn besta vestra allra tíma braut myndin nokkrar venjur þessa tíma þegar hún kom út. Það var til dæmis óvenjulegt að sýna hetjuna í svörtu. Lokaatriðið - þar sem Will grýtir tinstjörnunni sinni í moldina og rýkur úr bænum - þótti sumum, eins og t.d. John Wayne, óamerískt, enda fyrirleit hann High Noon og gerði í staðinn Rio Bravo, sem var svar hans gegn þessari mynd og fjallaði um fógeta sem hafnaði allri hjálp. Myndin mætti einnig gagnrýni frá kommúnistaöflum í Sovetríkjunum, sem fannst hún upphefja einstaklinginn. Með tíð og tíma hafa þessar gagnrýnisraddir orðið sjaldgæfari enda hefur hún hlotið lof frá flestum vængjum stjórnmálanna (t.d. lofaði Ronald Reagan myndina þrátt fyrir að vera mikill anti-kommúnisti).
Eitt stílbragð sem mér fannst áhugavert var að láta hana gerast á um það bil rauntíma, þ.e.as. að mínúta á skjánum jafngildir mínútu hjá áhorfendum. Þrátt fyrir bæði það og að lítið er um bardagaatriði í myndinni (sérstaklega fyrir vestra) fyrir utan síðustu 15 mínúturnar þá er myndin aldrei leiðinleg heldur nær að halda upp mikilli spennu allan tímann. Kannski er það bara út af öllum tifandi klukkunum!
Myndin hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta lagið. Það var spilað mjög oft í myndinni. Hér má hlusta á það:
Flott færsla. 7 stig.
ReplyDelete