Friday, December 3, 2010

National Lampoon's Christmas Vacation

Griswold fjölskyldan
National Lampoon's Christmas Vacation (eða Jólafjör í ömurlegri þýðingu imdb) er gamanmynd frá 1989 sem fjallar um tilraunir hins ástkæra eiginmanns Clark Griswold til þess að fagna jólunum með fjölskyldu sinni. Á einhvern hátt tekst honum hins vegar að klúðra öllu sem hægt er að klúðra, þar með talið að læsa sig uppi á háalofti, sprengja upp jólaskrautið, detta af þakinu og fá sérsveit lögreglunnar í heimsókn á sjálfan jóladag. Þrátt fyrir allt þetta tekst honum að halda sér gangandi, vitandi það að jólabónusinn - sem mun bjarga jólunum - er á leiðinni.

Einn af mest heillandi þáttunum við myndina eru allar litríkar persónurnar, þ.e.a.s. fjarskyldir ættingjar Griswold-fjölskyldunnar sem koma og heimsækja hana um jólin. Fyrir utan Randy Quaid sem er frábær í hlutverki bróðurs Eddie (hann lék einnig í National Lampoon's Vacation) inniheldur myndin heilan helling af litríkum karakterum, eins og til dæmis skrítnu tengdaforeldrasettin og allir furðulegu frændurnir og frænkurnar.

Bræðurnir
Myndin var fyrsta tilraun leikstjórans Jeremiah Chechik til þess að gera kvikmynd í fullri lengd en áður hafði hann bara unnið við auglýsingar. Roger Ebert, sem er ekki aðdáandi myndarinnar, skrifar í ritdómi að kannski sé hann ástæðan fyrir því að myndin var ekki svo góð. Ég tók hins vegar ekkert eftir lélegri leikstjórn en á hinn bóginn var ég aldrei mikið að spá í söguþræðinum. Það eru svo mörg góð atriði í myndinni að þrátt fyrir að þau tengist kannski ekki alltaf á alveg rökréttan hátt þá gleymist það fljótt í gamanmynd af þessu tagi.

Christmas Vacation er kannski svolítið klisjukennd bíómynd og örugglega ekki sú besta sinnar tegundar. Þrátt fyrir það er þetta ein af mínum uppáhalds gamanmyndum. Á tímabili horfði ég á hana fyrir hver einustu jól með systur minni og fannst hún alltaf jafn fyndin í hvert skipti. Ég er eiginlega orðinn hálf spenntur að kíkja á hana aftur núna fyrir þessi jól.

Mjög gott atriði úr myndinni:

1 comment: