Friday, April 8, 2011

Ordinary People

Eftirfarandi er lítið breytt kvikmyndaritgerð sem ég skrifaði í kvöld fyrir sálfræði í MR. Þótt viðfangsefnið tengist aðallega sálfræði datt mér í hug að kennari hefði áhuga.

Kvikmyndin sem er til umfjöllunar í þessum pistli heitir Ordinary People og fjallar um líf hins sautján ára Conrads sem þjáist af þunglyndi og sektarkennd eftir óvæntan dauða eldri bróður síns. Myndin þótti framúrskarandi á sínum tíma, m.a. vegna þess að hún lýsa hinni svokölluðu sálaraflfræðilegri viðtalsmeðferð (e. psychodynamic psychotherapy) á nákvæman og raunsæjan hátt (Miller 1999:174)

Pistillinn er tvískiptur. Annars vegar ætla ég að útskýra persónuleika, hegðun og einkenni aðalpersónunnar Conrads og hins vegar að hanna meðferðaráætlun út frá sjónarhorni hugrænnar atferlismeðferðar. Ég vil þó taka fram að í myndinni var Conrad í stöðugri og öflugri viðtalsmeðferð sem mun hafa áhrif á umfjöllun mína.

Lýsing á viðfangsefni

Þegar Conrad var sextán ára eyddi hann fjórum mánuðum á spítala í kjölfar alvarlegrar sjálfsmorðstilraunar. Eftir útskrift af spítalanum hélt Conrad áfram að sýna dæmigerð þunglyndiseinkenni eins og deyfð, minni matarlyst og svefnleysi ásamt því að forðast fyrri vini sína. Einnig sýndi hann einkenni sem eru dæmigerð í bíómyndum fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áfalli; hann fékk stöðugt endurhvörf eða flashbacks aftur til þess þegar bróðir hans dó í slysi úti á báti. Þessi einkenni urðu til þess að Conrad var greindur með það sem kallast á ensku agitated depression (þ.e. þunglyndi með oflætiseinkennum) án sjálfsvígshugsana (Miller 1999:174).

Þrátt fyrir litla löngun til að ræða tilfinningar sínar fellst Conrad á að hitta sálfræðing tvisvar í vikum til þess að öðlast meiri stjórn á lífi sínu (skv. Conrad sjálfum). Í fyrstu tímunum hjá sálfræðingnum er Conrad mjög lokaður og bældur. Þegar hann svo opnar sig sýnir hann mikla reiði gagnvart sálfræðingnum. Skv. varnarháttakenningum Freuds myndi þetta líklega kallast yfirfærsla því eins og síðar kom í ljós beindist raunveruleg reiði Conrads gegn móður sinni. Með mikilli áreynslu fékkst Conrads loks til þess að viðurkenna hvað hann upplifði mikla reiði, kvíða og dapurleika og í kjölfarið gat sálfræðingurinn betur farið að vinna í skjólstæðingi sínum.

Conrads sýnir nokkrar hliðar á persónuleika sínum eftir því hvaða hópi hann er með. Áður en hann hefur sálfræðimeðferð sína er hann þó alltaf þögull og lokaður, hvort sem hann er með vinum sínum eða fjölskyldu, með reiðisköstum á milli. Áhorfendur fá að sjá að fyrir áfallið þar sem Conrad missti bróður sinn var hann mjög opinn og heilbrigður unglingur. Augljóslega mótað þetta atvik persónuleika hans á djúpan hátt en erfiðar fjölskylduaðstæður hafa einnig áhrif á persónuleika Conrads. Móðir hans er bitur og sýnir syni sínum litla hlýju og ein af ástæðunum fyrir langvarandi þunglyndi Conrads er sú að móðir hans hefur ekki hjálpað honum að vinna úr þessu áfalli. Conrad upplifir mikla sektarkennd út af dauða bróður síns og þar sem hann fær ekki aðstoð til að vinna úr þessum hugsunum sínum dregst depurð hans á langinn.

Meðferð

Eins og áður segir gekkst Conrad undir það sem kallast sálaraflfræðileg viðtalsmeðferð. Slík meðferð og sálgreining Freuds á margt sameiginlegt. Markmiðið með báðum meðferðunum er að losa um spennu í huga sjúklingsins með því að draga ómeðvitaðar hvatir og tilfinningar fram á yfirborðið, t.d. með því að vinna bug á varnarháttum sjúklingsins. Á hinn bóginn er nokkur munur á þessum aðferðum; sálaraflfræðileg viðtalsmeðferð leggur ekki áhersla á dulmeðvitundina og kenningar Freuds um mikilvægi t.d. kyn- og árásarhvatarinnar eru lagðar á hilluna. Ég held að í raun sé þessi viðtalsmeðferð aðeins sálgreining í nútímabúning.

Þótt ég ætli að mæla með hugrænni atferlismeðferð fyrir Conrad vil ég nota ákveðna þætti í þessari viðtalsmeðferð og sálgreiningunni, t.d. held ég að það væri nauðsynlegt að sigrast á varnarháttum Conrads áður en sálfræðingurinn gæti hafið hina eiginlegu meðferð. Þetta er vegna þess að Conrad er svo bældur að hann verður fyrst að geta talað opinskátt um sjálfan sig áður en hægt er að vinna á þunglyndiseinkennum hans með því að breyta hugsunum hans.

Annað atriði sem ég vil skoða væri að setja Conrad á einhvers konar þunglyndislyf. Mjög algengt er að sjúklingar sem þjást af alvarlegu þunglyndi séu bæði settir á lyf ásamt meðferð hjá sálfræðingi. Þótt þunglyndi orsakist ekki beinlínis af líffræðilegum breytingum í heila þá er ástands sjúklingsins nátengt boðefnatruflunum og ég held að þunglyndislyf gætu stytt hugrænu atferlismeðferðina umtalsvert, ef ekki nema vegna þess að Conrad myndi líða betur og eiga þar með auðveldara að breyta hugsunum sínum. Önnur ástæða er að hann hefur áður reynt að fremja sjálfsmorð og óbreytt ástand þýðir að það er hætta á að hann reyni það aftur. Í meðferðinni minni vil ég þó taka Conrad af lyfjum um leið og ég tek eftir því að hann er farinn að breyta hugsunum sínum umtalsvert.

Ég ætla að taka nokkurt mið af þarfapíramída Maslows sem sýnir að umhyggja er nauðsynleg til þess að Conrad geti öðlast meira sjálfstraust. Conrad nýtur lítillar umhyggju hjá móður sinni, kannski út af því hvað hann er bældur, og ætla ég að að reyna að laga samband þeirra með aðstoð hugrænu atferlismeðferðarinnar minnar. Fyrir utan þarfapíramídann ætla ég ekki að leggja áherslu á sjónarhorn mannúðarsálfræðinnar fyrst um sinn í meðferðinni minni. Þótt ég telji það mikilvægt að Conrad setji sér markmið og átti sig á því hvað hann vilji gera við líf sitt held ég að þetta sé eitthvað sem ætti að taka við þegar hann hefur breytt hugsunum sínum og sigrast á þunglyndiseinkennunum.

Þá er komið að því að útskýra betur betur hvað felst í hugrænnu atferlismeðferðinni minni. Grunnhugmynd hugrænnar atferlismeðferðar er að neikvæðar hugsanir séu ekki einkenni heldur orsakavaldur vanlíðunar og í þessu tilfelli þunglyndi. Þess vegna held ég að allar neikvæðu hugsanir Conrads sem hann vissulega hefur orsaki þunglyndi hans. Dæmi um þetta er að hann telur sig hafa valdið dauða bróður síns og hvað hann hefur litla trúa á eigin getu, sem sést á því hvað hann telur sig hafa litla hæfileika í íþróttinni sem hann æfir (sundi). Þetta skapar neikvæða sjálfsmynd sem eykur í kjölfarið vanlíðan hans.

Fyrsta skrefið felst í því að finna neikvæðu hugsanir Conrads. Þetta er að einhverju leyti hægt með viðtalstækni. Ég mæli með því til að byrja með að láta sálfræðing spjalla við Conrad og um leið fá hann til að skrá niður neikvæðu hugsanir Conrads.

Seinna skrefið er að fá Conrad til að viðurkenna hvað hugsanir hans eru neikvæðar. Þetta er hægt með því að rökræða við Conrad um vandamálin hans og benda honum hversu oft hann kennir sjálfum sér um það sem miður fer.

Þriðja skrefið er svo að fá Conrad til þess að reyna að hugsa á jákvæðari nótum um sjálfan sig. Ég vil ítreka að þetta er eitthvað sem kemur innra með frá Conrad og enginn sálfræðingur getur beinlínis breytt hugsunum skjólstæðings án vilja hans. Hér getur sálfræðingurinn rætt um einstakar hugsanir Conrads og bent á aðrar skýringar á vandamálum heldur en því að þau séu Conrad sjálfum að kenna. Vonandi leiðir þetta til þess að Conrad fer að hugsa öðruvísi.

Eins og nafnið á hugrænni atferlismeðferð bendir til þá eru bæði kenningar atferlisfræðinnar og hugrænu sálfræðinnar notaðar í meðferðinni. Conrad mun læra að með því að breyta hugsunum sínum sjálfur (sem er eins konar styrkir) upplifir hann umbun í formi meiri vellíðunar og þess vegna mun hann halda áfram að reyna að bæta eigin hugsanir á virkan hátt. Þannig má á vissan hátt líta á hugrænu atferlismeðferðina sem virka skilyrðingu með jákvæðri styrkingu. Ef sálfræðingnum tekst vel til ætti því Conrad smátt og smátt að geta breytt hugsunum sínum með sífellt minni aðstoð frá sálfræðingnum.

Heimildaskrá:
Miller, Frederick. 1999. Using the Movie Ordinary People to Teach Psychodynamic Psychotherapy With Adolescents. Academic Psychiatry 23:174-179. Sjá vefslóð: http://ap.psychiatryonline.org/cgi/content/full/23/3/174 [Sótt 8. apríl 2011]

Trailer myndarinnar:

Wednesday, April 6, 2011

Das Leben der Anderen

Das Leben Der Anderen (Líf Annarra) er þýsk kvikmynd sem gerist í Austur-Berlín og fjallar um starf Stasi-mannsins Gerd Wiesle. Wiesle fær það hlutverk að njósna um leikskáld og konu hans sem hafa vakið athygli ríkisstjórnarinnar fyrir að fylgja flokknum ekki að öllum málum. Hann kemur sér fyrir með njósnatól í húsi þeirra en með hverjum deginum dregst hann meir og meir inn í líf þeirra.

Einn af fyrstu hlutunum sem maður tekur eftir er hversu einmana- og fátæklegu lífi Stasi-maðurinn Wiesle lifir. Þegar vinnu hans er lokið fer hann beint heim í tóma íbúðina sína, borðar kvöldmat einn, horfir á sjónvarpið og sofnar. Á sama tíma auðgar vinnan hans lífið meir og meir með hverjum deginum. Með því að fylgjast með þessu menningarlega sinnaða fólki kynnist hann nýjum hugsunarhætti og nýjum leiðum til að tjá sig. Þannig er þessi mynd þroskasaga um mann sem er þó á miðjum aldri. Rétt eins og í myndinni sem ég skrifaði um fyrr, The Man Who Wasn't There, sýnir aðallleikarinn litla tjáningu á yfirborðinu en hins vegar er hægt að sjá greinilegar breytingar á honum eftir því sem tíminn líður.

Til að útskýra þetta nánar: í upphafi er Wiesler maður sem trúir á kerfið í Austur-Þýskalandi, hann er kaldur, án skopskyns og er hollur starfinu sínu. Í upphafi, þegar hann byrjar á að njósna um leikhúshjónin, lítur hann á þau sem hverja aðra andófsmenn sem er nauðsynlegt að handsama. Eftir því sem hann kynnist þeim nánar uppgötvar hann að þetta eru bara manneskjur og ekki nóg með að hunsa alla vafasömu skoðanir og hegðun þeirra ákveður hann að beinlínis aðstoða þau við að sleppa undan kerfinu.

Sumir hafa gagnrýnt myndina fyrir það eitt að leikstjórinn var bara sex ára þegar Stasi réði lögum og lofum í Austur-Þýskalandi. Þeir segja að hann geti því boðið upp á litla innsýn inn í ástandið á þessum tíma. Ég held hins vegar að aðalatriðið í myndinni sé ekki endilega að lýsa ástandinu í Austur-Þýskalandi heldur kannski líka að segja frá því hvernig líf manneskju eins og Wiesle, sem hefur rekið sig á vegg í lífinu, getur tekið stakkaskiptum.

Ég set hérna inn trailerinn fyrir þá sem hafa ekki séð myndina:

A bout de souffle

A bout de souffle (sem var sýnd á frönsku kvikmyndahátíðinni fyrr í vetur) fjallar um Michel, sem er ungur afbrotamaður sem tekur Humphrey Bogart til fyrirmyndar í hegðun sinni. Dag einn þegar Michel á ferð úti á landi í stolnum bíl er hann stöðvaður af lögreglumanni og í kjölfarið skýtur Michel hann og drepur. Hann leitar skjóls hjá bandarískri stelpu sem hann hefur verið að hitta og veit ekki að Michel er á flótta. Stelpan kemst á endanum að því að Michel hefur myrt lögreglumanni og verður hún því að ákveða hjá hverjum hollusta sín liggur.

A bout de souffle er líklega stærsta verk frönsku nýbylgjunar sem fjallað hefur verið um í tímum í vetur. Eins og komið hefur fram snerist franska nýbylgjan um nýja leikstjóra með nýjar áherslur. Þeir lögðu til dæmis áherslu á að láta persónur sínar mótast að einhverju leyti eftir bandarískri bíómenningu eins og kemur sérstaklega fram hjá aðalpersónunni í þessari mynd. Hann mótast að svo stórum hluta að Bogart og bara bandarískri bíómenningu í heildina litið. Einnig er myndin ákveðið homage til bandarískra glæpa-b-mynda frá fimmta áratugnum, með dæmigerðri þunnri sögu af löggumorðingja á flóta.

Myndin er af mörgum talin marka þáttaskil í kvikmyndasögunni og líta svo á sem þessi mynd sé upphafi nútímabíómynda (hvað svo sem það merkir). Þetta er meðal annars út af öðruvísi tækni í myndinni, eins og að láta myndavélina rúlla á hjólum og að láta tvær myndavélar taka upp skot af fólki frá nánast sama stað. Einnig er viðfangsefnið allt öðruvísi með "hinu sjálfslægnu siðleysi" hvað varðar persónurnar eða einfaldlega bara meira frelsi. Sumir hlutir höfðu ekki sést áður, eins og til dæmis löng atriði þar sem Michel og kærasta hans liggja uppi í rúmi.

A Bout de Souffle er ekki fyrsta myndin til þess að fjalla um kvikmyndir. Sunset Boulevard hafði gert það líka sem og A Star is Born frá 1954. Þessi mynd er hins vegar fyrsta myndin þar sem eiginleika bíómyndar koma beinlínis við sögu í einhverjum póstmódernískum skilningi, fyrsta myndin til þess að fjalla um sjálfa sig.

Man Bites Dog

Man Bites Dog er belgísk mockumentary um leigumorðingja sem hefst á því að ung kona er kyrkt til dauða á meðan tökumaðurinn tekur það aðgerðalaus upp. Þetta er aðeins byrjunin á blóðugri og andstyggilegri mynd í anda American Psycho sem sýnir líkin hrúgast upp á meðan morðinginn útskýrir muninn á því að drepa dverga og lítil börn. Ásamt því skýrir hann vafasöm viðhorf sín um kynþætti og kynhneigð manna ásamt dæmigerðri mannfyrirlitningu - en sýnir engu að síður einstaka gleði og stolt yfir starfi sínu.

Fyrir þessa mynd hafði ég séð nokkrar ofbeldisfullar myndir í svipuðum dúr (eins og A Clockwork Orange og Natural Born Killers) en þessi kvikmynd gekk hins vegar skrefinu lengra. Ég átti erfitt með að horfa á mörg atriðin í gegn þar sem gamlar konur og börn voru myrt á langdreginn hátt með einhvern einstaklega svartan húmor í huga. Á einhverjum tímapunkti verður ofbeldið svo yfirgengilegt að það er nánast súrralískt en samt fannst mér sum atriði svo erfið áhorfs að ég spólaði næstum yfir þau.

Markmiðið hjá leikstjórarnum var sjálfsagt eins og hjá Oliver Stone síðar í NBK; að sýna fram á hvernig áhorfendur eru heillaðir af ofbeldi. Það er reynt að vekja athygli manns á hlutverki tökuliðsins og hvernig þau breytast frá því að vera hlutlausir áhorfendir í þátttakendur í morðunum. Hugmyndin er að nútímafjölmiðlar séu dálítið svipaðir þessu þar sem þeir taka upp stríðsátök og hermdarverk án nokkurrar löngunar til að grípa inn í. Ásamt þessu er líka reynt að gefa í skyn að áhorfandinn beri einhverja ábyrgð á þessu ofbeldi bara með því að horfa á myndina. Það er satt að við höfum mörg mikinn áhuga á að lesa nákvæmar greinar um ofbeldisverk og árásir. Með þessu nær leikstjórinn að gagnrýna áhorfendur án þess að segja neitt ákveðið.

Þótt myndin sé flokkuð sem svört gamanmynd þá er ekkert sem vekur hlátur hjá áhorfandanum við áhorfið og því er þessi stimpill kannski frekar vafasamur. Þótt myndin komi skilaboðunum vel á framfæri held ég að það sé hægt að gera það líka án þess að ganga jafn hart fram af áhorfendum og er óneitanlega gert í þessari mynd. Þess vegna held ég að Natural Born Killers sé ekki verra verk ef maður vill horfa á gagnrýni á ofbeldisdýrkun nútímafólks.


Trailer myndarinnar

The Man Who Wasn't There

The Man Who Wasn't There er svart-hvít neo-noir mynd frá 2001 eftir Coen-bræðurna. Hún fjallar um hinn hægláta og þögla rakara Ed sem býr í Bandaríkjunum 1949. Ed er orðinn þreyttur á enginn taki eftir sér og vill fá nýtt líf. Hann heyrir af tækifæri til þess að fjárfesta peningum í þurrhreinsun og ákveður að grípa gæsina með því að kúga peninga út úr yfirmanni eiginkonu sinnar. Hins vegar fara hlutirnir auðvitað ekki eins og hann ætlaði sér.

Leikarinn sem túlkar Ed, Billy Bob Thornton, er mjög góður í þessari mynd og virðist hreinlega vera ætlað að leika í svarthvítri noir-mynd. Jafnvel þar sem hann situr og gerir ekki neitt má sjá hvernig tilfinningarnar hrærast um í honum. Það er merkilegt hvernig hann nær að fanga athygli manns án þess að segja eða gera nokkuð að því er virðist. Það eina sem hann gerir að reykja sígarettur á meðan maður heyrir röddina hans sem voice-over. Myndin hefur marga aðra góða leikara eins og Frances McDormand, sem virðist vera í næstum öllum Coen-myndunum, sem túlkar hlutverk sitt mjög vel í þeim fáu atriðum þar sem maður sér hana. Maðurinn sem leikur lögfræðing Eds, Tony Shalhoub, er jafnvel ennþá betri. Þá hef ég ekki talið upp nokkurn fjölda af öðrum persónum.

Í dag virðast neo-noir myndirnar vera þær einu sem verða betri á því að vera ennþá í svart-hvítu. Það væri reyndar hálfskrítið að sjá Bandaríkin eins og þau líta út á fimmta áratugnum í lit. Eitt sem neo-noir myndir komast upp með er að hafa frásögnina í fyrstu persónu í gegnum voice-over en það virðist oft heppnast illa í öðrum greinum (eða stefnum) kvikmynda. Þetta tvennt fer The Man Who Wasn't There afskaplega vel.

Þrátt fyrir allt fannst mér pirrandi þegar ég horfði á myndina hvað aðalpersónan Ed var rosalega passív allan tímann. Þeir sem hafa séð myndina muna eftir því hvernig henni lauk og örlög aðalpersónurnar. Ef Ed hefði getað getað tjáð sig að betur og komið hlutunum út úr sér þá hefði hann áreiðanlega sloppið betur en hann gerði. Þetta var auðvitað markmiðið hjá leikstjórunum og mér fannst samt eins og myndin yrði einhvern veginn of fjarlæg tilfinningalega við þetta. Það er í raun auðveldara að dást að tækninni við myndina heldur en að ná að tengjast henni eða aðalpersónunni í myndinni.


Myndin er afskaplega ljóðræn þótt ég hafi reyndar lítið fjallað um það í pistlinum.

Rare Birds

Síðasta vor heimsótti ég frænda minn, Sturlu Gunnarsson, sem er leikstjóri sem býr í Toronto. Á ferli sínum hefur hann leikstýrt á fjórða tug sjónvarpsþátta, kvikmynda og heimildamynda og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir heimildamyndina After the Axe frá 1981. Þegar ég hitti hann naut ég þeirra forréttinda að fá að sjá hvernig vinna hans fer fram í stúdíóinu og að heyra af vinnubrögðum við sumar myndir. Ég hafði hugsað mér að nota eitthvað af þessari reynslu í bloggfærslu og valdi til þess kvikmyndina Rare Birds frá 2001.

Rare Birds er gamanmynd sem fjallar um Dave sem rekur nánast gjaldþrota veitingahús við ströndina. Í örvæntingu sinn fellst hann á hugmynd frá vini sínum, Phonce (sem býr í kafbáti), sem snýst um að tilkynna að sjaldgæf önd hafi fundist við ströndina. Í kjölfarið fyllist fjaran af fuglaskoðurum og veitingastaðurinn nýtur fordæmislausrar velgengni. Á meðan þessu stendur reynir Dave að selja tíu kíló af kókaíni sem hann fann í hafinu og félagarnir fara að taka eftir grunsamlegum mannaferðum í fjörunni.

Það var sérstakt að heyra frá vinnunni við gerð myndarinnar. Til dæmis var nokkuð stórt sprengingaratriði sem var tekið upp af manni sem hefur þá atvinnu að hanna sprengingar fyrir kvikmyndir. Annar punktur sem ég man eftir var hversu sérstakur leikmunurinn var sem var notaður sem önd og öll vinnan sem fólst í því að halda henni á floti í vatninu. Ég man líka eftir því að Sturla talaði um tæknivinnuna sem fólst í kafbátnum sem aðalpersónurnar dvöldust oft í. Þegar hann var sýndur utan frá hafði maður á tilfinningunni að um væri að ræða risastóran og raunverulegan kafbát. Hins vegar var bara um að ræða lítið módel í baðkari og innviðir bátsins voru einfaldlega teknir upp í stúdíói.

Öll myndin var tekin upp á stuttum tíma eða þrjátíu dögum fyrir utan nauðsynlegt lokaskot myndarinnar. Ófyrirséð snjófall olli því að ekki var hægt að taka það upp fyrr en mörgum mánuðum síðar þegar snjórinn bráðnaði um vorið. Ég ímynda mér reyndar að þetta hafi ekki komið svo mikið að sök þar sem hægt var að vinna í myndinni á meðan. Í stúdíóinu sá ég hvað það fer gríðarlega mikil vinna fer t.d. í það að laga og skerpa litina á myndaramma í venjulegum bíómyndum ásamt því að bæta við og laga hljóð fyrir hvert atriði. Það kom mér í raun á óvart hversu fá hljóð sem maður heyrir í bíómyndum, jafnvel heimildamyndum, eru tekin upp á staðnum. Öll þessi vinna tekur sjálfsagt marga mánuði hvort eð er og ég held að tíminn sem fari í að taka upp myndina sjálfa sé oft tiltölulega lítill miðað við þetta.

Því miður vildi svo til að Rare Birds var fyrst sýnd níunda september 2001 og féll myndin að mestu leyti í skuggann á atburðum sem áttu sér stað á svipuðum tíma. Þetta er mikil synd því að myndin er mjög vel gerð og fyndin og hefði eflaust getað notið ennþá meiri velgengni.

Hér er tengill yfir á trailer myndarinnar (fann hann bara á imdb í nógu góðri upplausn):
http://www.imdb.com/video/screenplay/vi445645081/

Kvikmyndagerð 2010-2011

Beðið var um að lýsa áfanganum og gefa stutta umsögn.

Áður en ég skráði mig í kvikmyndagerð vissi ég lítið við hverju var að búast. Fljótlega kom í ljóst að um var að ræða gífurlega metnaðarfulla valgrein og þegar upp er staðið hugsa ég að ég hafi næstum notað meiri tíma í að læra fyrir kvikmyndagerð heldur en t.d. stærðfræði sem á að heita stærsta greinin á brautinni minni. Ég sé ekki eftir því að hafa valið áfangann en það kom þó fyrir nokkrum sinnum í vetur.

Myndirnar þrjár sem við gerðum kostuðu allar gríðarlega mikinn tíma og orku - og þá sérstaklega heimildamyndin sem tók heilu dagana (ásamt einum erfiðasta all-nighter í skólagöngunni minni). Þá hef ég ekki minnst á sjálft kvikmyndabloggið en það líktist því að þurfa að skrifa eins og tvær ritgerðir á mánuði. Fyrir utan þetta þá voru mýmörg smáverkefni og kvikmyndasýningar sem maður þurfti að sækja. Mér finnst kvikmyndagerð vera heillandi grein og þetta var oft mjög skemmtilegt (bestu minningarnar í faginu voru tökurnar á maraþonmyndinni í byrjun vetrar þegar námsálag í öðrum fögum var ennþá lítið). Hins vegar varð maður stundum mjög þreyttur á allri þessari vinnu seinna meir. Á köflum fannst mér eins og ég væri kominn af Eðlisfræðibraut II yfir á Kvikmyndabraut II.

Það sem þyrfti líklega að breyta væri að minnka bloggkröfuna um nokkur stig. Tuttugu stig eru að mínu mati of mikið fyrir einn mánuð þegar verkefnaálagið er í þessum dúr (það var mjög slæmt þegar maður hafði ekki tíma til að reikna heima út af blogginu). Ég er hrifinn af þeirri hugmynd að gefa stig fyrir komment á færslur annarra. Hvað varðar stuttmyndirnar sjálfar þá hef ég fáar uppástungur að breytingum, ég er sammála að þær séu nauðsynlegar og mér finnst ekki eins og þú þurfir að vera harðari á skiladögunum. Hugsanlega væri betra ef þú sæir um að koma græjunum á milli hópa, það myndi a.m.k. minnka líkurnar á að hlutirnir týndust. Röðunina á efninu í vetur var fín en ég held það væri betra ef vinnan í kringum lokaverkefnið hæfist fyrr svo þetta væri ekki svona nálægt stúdentsprófunum (t.d. að hafa skiladag í byrjun mars).

Að öðru leyti var þetta ósköp ánægjulegur vetur og ég vona að ég geti nýtt mér námið að einhverju leyti í framtíðinni.