Kvikmyndin sem er til umfjöllunar í þessum pistli heitir Ordinary People og fjallar um líf hins sautján ára Conrads sem þjáist af þunglyndi og sektarkennd eftir óvæntan dauða eldri bróður síns. Myndin þótti framúrskarandi á sínum tíma, m.a. vegna þess að hún lýsa hinni svokölluðu sálaraflfræðilegri viðtalsmeðferð (e. psychodynamic psychotherapy) á nákvæman og raunsæjan hátt (Miller 1999:174)
Pistillinn er tvískiptur. Annars vegar ætla ég að útskýra persónuleika, hegðun og einkenni aðalpersónunnar Conrads og hins vegar að hanna meðferðaráætlun út frá sjónarhorni hugrænnar atferlismeðferðar. Ég vil þó taka fram að í myndinni var Conrad í stöðugri og öflugri viðtalsmeðferð sem mun hafa áhrif á umfjöllun mína.
Lýsing á viðfangsefni
Þegar Conrad var sextán ára eyddi hann fjórum mánuðum á spítala í kjölfar alvarlegrar sjálfsmorðstilraunar. Eftir útskrift af spítalanum hélt Conrad áfram að sýna dæmigerð þunglyndiseinkenni eins og deyfð, minni matarlyst og svefnleysi ásamt því að forðast fyrri vini sína. Einnig sýndi hann einkenni sem eru dæmigerð í bíómyndum fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áfalli; hann fékk stöðugt endurhvörf eða flashbacks aftur til þess þegar bróðir hans dó í slysi úti á báti. Þessi einkenni urðu til þess að Conrad var greindur með það sem kallast á ensku agitated depression (þ.e. þunglyndi með oflætiseinkennum) án sjálfsvígshugsana (Miller 1999:174).
Þrátt fyrir litla löngun til að ræða tilfinningar sínar fellst Conrad á að hitta sálfræðing tvisvar í vikum til þess að öðlast meiri stjórn á lífi sínu (skv. Conrad sjálfum). Í fyrstu tímunum hjá sálfræðingnum er Conrad mjög lokaður og bældur. Þegar hann svo opnar sig sýnir hann mikla reiði gagnvart sálfræðingnum. Skv. varnarháttakenningum Freuds myndi þetta líklega kallast yfirfærsla því eins og síðar kom í ljós beindist raunveruleg reiði Conrads gegn móður sinni. Með mikilli áreynslu fékkst Conrads loks til þess að viðurkenna hvað hann upplifði mikla reiði, kvíða og dapurleika og í kjölfarið gat sálfræðingurinn betur farið að vinna í skjólstæðingi sínum.
Conrads sýnir nokkrar hliðar á persónuleika sínum eftir því hvaða hópi hann er með. Áður en hann hefur sálfræðimeðferð sína er hann þó alltaf þögull og lokaður, hvort sem hann er með vinum sínum eða fjölskyldu, með reiðisköstum á milli. Áhorfendur fá að sjá að fyrir áfallið þar sem Conrad missti bróður sinn var hann mjög opinn og heilbrigður unglingur. Augljóslega mótað þetta atvik persónuleika hans á djúpan hátt en erfiðar fjölskylduaðstæður hafa einnig áhrif á persónuleika Conrads. Móðir hans er bitur og sýnir syni sínum litla hlýju og ein af ástæðunum fyrir langvarandi þunglyndi Conrads er sú að móðir hans hefur ekki hjálpað honum að vinna úr þessu áfalli. Conrad upplifir mikla sektarkennd út af dauða bróður síns og þar sem hann fær ekki aðstoð til að vinna úr þessum hugsunum sínum dregst depurð hans á langinn.
Meðferð
Eins og áður segir gekkst Conrad undir það sem kallast sálaraflfræðileg viðtalsmeðferð. Slík meðferð og sálgreining Freuds á margt sameiginlegt. Markmiðið með báðum meðferðunum er að losa um spennu í huga sjúklingsins með því að draga ómeðvitaðar hvatir og tilfinningar fram á yfirborðið, t.d. með því að vinna bug á varnarháttum sjúklingsins. Á hinn bóginn er nokkur munur á þessum aðferðum; sálaraflfræðileg viðtalsmeðferð leggur ekki áhersla á dulmeðvitundina og kenningar Freuds um mikilvægi t.d. kyn- og árásarhvatarinnar eru lagðar á hilluna. Ég held að í raun sé þessi viðtalsmeðferð aðeins sálgreining í nútímabúning.
Þótt ég ætli að mæla með hugrænni atferlismeðferð fyrir Conrad vil ég nota ákveðna þætti í þessari viðtalsmeðferð og sálgreiningunni, t.d. held ég að það væri nauðsynlegt að sigrast á varnarháttum Conrads áður en sálfræðingurinn gæti hafið hina eiginlegu meðferð. Þetta er vegna þess að Conrad er svo bældur að hann verður fyrst að geta talað opinskátt um sjálfan sig áður en hægt er að vinna á þunglyndiseinkennum hans með því að breyta hugsunum hans.
Annað atriði sem ég vil skoða væri að setja Conrad á einhvers konar þunglyndislyf. Mjög algengt er að sjúklingar sem þjást af alvarlegu þunglyndi séu bæði settir á lyf ásamt meðferð hjá sálfræðingi. Þótt þunglyndi orsakist ekki beinlínis af líffræðilegum breytingum í heila þá er ástands sjúklingsins nátengt boðefnatruflunum og ég held að þunglyndislyf gætu stytt hugrænu atferlismeðferðina umtalsvert, ef ekki nema vegna þess að Conrad myndi líða betur og eiga þar með auðveldara að breyta hugsunum sínum. Önnur ástæða er að hann hefur áður reynt að fremja sjálfsmorð og óbreytt ástand þýðir að það er hætta á að hann reyni það aftur. Í meðferðinni minni vil ég þó taka Conrad af lyfjum um leið og ég tek eftir því að hann er farinn að breyta hugsunum sínum umtalsvert.
Ég ætla að taka nokkurt mið af þarfapíramída Maslows sem sýnir að umhyggja er nauðsynleg til þess að Conrad geti öðlast meira sjálfstraust. Conrad nýtur lítillar umhyggju hjá móður sinni, kannski út af því hvað hann er bældur, og ætla ég að að reyna að laga samband þeirra með aðstoð hugrænu atferlismeðferðarinnar minnar. Fyrir utan þarfapíramídann ætla ég ekki að leggja áherslu á sjónarhorn mannúðarsálfræðinnar fyrst um sinn í meðferðinni minni. Þótt ég telji það mikilvægt að Conrad setji sér markmið og átti sig á því hvað hann vilji gera við líf sitt held ég að þetta sé eitthvað sem ætti að taka við þegar hann hefur breytt hugsunum sínum og sigrast á þunglyndiseinkennunum.
Þá er komið að því að útskýra betur betur hvað felst í hugrænnu atferlismeðferðinni minni. Grunnhugmynd hugrænnar atferlismeðferðar er að neikvæðar hugsanir séu ekki einkenni heldur orsakavaldur vanlíðunar og í þessu tilfelli þunglyndi. Þess vegna held ég að allar neikvæðu hugsanir Conrads sem hann vissulega hefur orsaki þunglyndi hans. Dæmi um þetta er að hann telur sig hafa valdið dauða bróður síns og hvað hann hefur litla trúa á eigin getu, sem sést á því hvað hann telur sig hafa litla hæfileika í íþróttinni sem hann æfir (sundi). Þetta skapar neikvæða sjálfsmynd sem eykur í kjölfarið vanlíðan hans.
Fyrsta skrefið felst í því að finna neikvæðu hugsanir Conrads. Þetta er að einhverju leyti hægt með viðtalstækni. Ég mæli með því til að byrja með að láta sálfræðing spjalla við Conrad og um leið fá hann til að skrá niður neikvæðu hugsanir Conrads.
Seinna skrefið er að fá Conrad til að viðurkenna hvað hugsanir hans eru neikvæðar. Þetta er hægt með því að rökræða við Conrad um vandamálin hans og benda honum hversu oft hann kennir sjálfum sér um það sem miður fer.
Þriðja skrefið er svo að fá Conrad til þess að reyna að hugsa á jákvæðari nótum um sjálfan sig. Ég vil ítreka að þetta er eitthvað sem kemur innra með frá Conrad og enginn sálfræðingur getur beinlínis breytt hugsunum skjólstæðings án vilja hans. Hér getur sálfræðingurinn rætt um einstakar hugsanir Conrads og bent á aðrar skýringar á vandamálum heldur en því að þau séu Conrad sjálfum að kenna. Vonandi leiðir þetta til þess að Conrad fer að hugsa öðruvísi.
Eins og nafnið á hugrænni atferlismeðferð bendir til þá eru bæði kenningar atferlisfræðinnar og hugrænu sálfræðinnar notaðar í meðferðinni. Conrad mun læra að með því að breyta hugsunum sínum sjálfur (sem er eins konar styrkir) upplifir hann umbun í formi meiri vellíðunar og þess vegna mun hann halda áfram að reyna að bæta eigin hugsanir á virkan hátt. Þannig má á vissan hátt líta á hugrænu atferlismeðferðina sem virka skilyrðingu með jákvæðri styrkingu. Ef sálfræðingnum tekst vel til ætti því Conrad smátt og smátt að geta breytt hugsunum sínum með sífellt minni aðstoð frá sálfræðingnum.
Heimildaskrá:
Miller, Frederick. 1999. Using the Movie Ordinary People to Teach Psychodynamic Psychotherapy With Adolescents. Academic Psychiatry 23:174-179. Sjá vefslóð: http://ap.psychiatryonline.org/cgi/content/full/23/3/174 [Sótt 8. apríl 2011]
Trailer myndarinnar:
Trailer myndarinnar:
Áhugavert. Og sem þökk fyrir að deila þessu með hópnum þá færðu þau örfáu stig sem vantaði upp á tíuna á vorönn.
ReplyDelete