Wednesday, April 6, 2011

Rare Birds

Síðasta vor heimsótti ég frænda minn, Sturlu Gunnarsson, sem er leikstjóri sem býr í Toronto. Á ferli sínum hefur hann leikstýrt á fjórða tug sjónvarpsþátta, kvikmynda og heimildamynda og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir heimildamyndina After the Axe frá 1981. Þegar ég hitti hann naut ég þeirra forréttinda að fá að sjá hvernig vinna hans fer fram í stúdíóinu og að heyra af vinnubrögðum við sumar myndir. Ég hafði hugsað mér að nota eitthvað af þessari reynslu í bloggfærslu og valdi til þess kvikmyndina Rare Birds frá 2001.

Rare Birds er gamanmynd sem fjallar um Dave sem rekur nánast gjaldþrota veitingahús við ströndina. Í örvæntingu sinn fellst hann á hugmynd frá vini sínum, Phonce (sem býr í kafbáti), sem snýst um að tilkynna að sjaldgæf önd hafi fundist við ströndina. Í kjölfarið fyllist fjaran af fuglaskoðurum og veitingastaðurinn nýtur fordæmislausrar velgengni. Á meðan þessu stendur reynir Dave að selja tíu kíló af kókaíni sem hann fann í hafinu og félagarnir fara að taka eftir grunsamlegum mannaferðum í fjörunni.

Það var sérstakt að heyra frá vinnunni við gerð myndarinnar. Til dæmis var nokkuð stórt sprengingaratriði sem var tekið upp af manni sem hefur þá atvinnu að hanna sprengingar fyrir kvikmyndir. Annar punktur sem ég man eftir var hversu sérstakur leikmunurinn var sem var notaður sem önd og öll vinnan sem fólst í því að halda henni á floti í vatninu. Ég man líka eftir því að Sturla talaði um tæknivinnuna sem fólst í kafbátnum sem aðalpersónurnar dvöldust oft í. Þegar hann var sýndur utan frá hafði maður á tilfinningunni að um væri að ræða risastóran og raunverulegan kafbát. Hins vegar var bara um að ræða lítið módel í baðkari og innviðir bátsins voru einfaldlega teknir upp í stúdíói.

Öll myndin var tekin upp á stuttum tíma eða þrjátíu dögum fyrir utan nauðsynlegt lokaskot myndarinnar. Ófyrirséð snjófall olli því að ekki var hægt að taka það upp fyrr en mörgum mánuðum síðar þegar snjórinn bráðnaði um vorið. Ég ímynda mér reyndar að þetta hafi ekki komið svo mikið að sök þar sem hægt var að vinna í myndinni á meðan. Í stúdíóinu sá ég hvað það fer gríðarlega mikil vinna fer t.d. í það að laga og skerpa litina á myndaramma í venjulegum bíómyndum ásamt því að bæta við og laga hljóð fyrir hvert atriði. Það kom mér í raun á óvart hversu fá hljóð sem maður heyrir í bíómyndum, jafnvel heimildamyndum, eru tekin upp á staðnum. Öll þessi vinna tekur sjálfsagt marga mánuði hvort eð er og ég held að tíminn sem fari í að taka upp myndina sjálfa sé oft tiltölulega lítill miðað við þetta.

Því miður vildi svo til að Rare Birds var fyrst sýnd níunda september 2001 og féll myndin að mestu leyti í skuggann á atburðum sem áttu sér stað á svipuðum tíma. Þetta er mikil synd því að myndin er mjög vel gerð og fyndin og hefði eflaust getað notið ennþá meiri velgengni.

Hér er tengill yfir á trailer myndarinnar (fann hann bara á imdb í nógu góðri upplausn):
http://www.imdb.com/video/screenplay/vi445645081/

1 comment:

  1. Skemmtileg og fróðleg færsla. 8 stig.

    Örugglega frábært að fá að fylgjast með Sturlu við vinnu sína - ég er ekki frá því að ég sé pínu afbrýðisamur.

    Trailerinn virkar skemmtilegur. Greinilega mynd sem maður þarf að kíkja á.

    ReplyDelete