Wednesday, April 6, 2011

Mulholland Drive

You know, you're watching the show, you're into the story. You know, there's like 5 minutes left and you realize "Hey! They can't make it! Timmy's still stuck in the cave. There's no way they wrap this up in 5 minutes!". I mean the whole reason you watch a TV show is because it ends. If I want a long, boring story with no point to it, I have my life.

- Jerry Seinfeld

Frá því að leikstjórinn David Lynch lauk við Eraserhead árið 1977 sáu áhorfendur ekki margar kvikmyndir frá Lynch í svipuðum stíl næstu árin. Næsta verk leikstjórans var hin tiltölulega mainstream The Elephant Man og í kjölfarið hin misheppnaða Dune frá 1984. Árið 1997 hófst loks endurkoma Lynch í hina súrrealísku draumaveröld með Lost Highway, svo Mulholland Drive frá 2001 og að lokum Inland Empire frá 2006 (sem mér fannst of langt gengin sbr. fyrri pistil minn um Lynch). Líklega nær stíll leikstjórans hápunkti með Mulholland Drive sem ég ætla að fjalla um í þessum pistli.

Rétt eins og með aðrar myndir frá Lynch er erfitt að útskýra söguþráð myndarinnar svo vel sé. Þó er hægt að gera grein fyrir tveimur aðalpersónum. Í upphafi myndarinnar sjáum við dökkhærða konu flýja sitt eigið morð með aðstoð tilviljanakennds bílslyss sem skilur morðingja hennar eftir dauða. Blóðug og dösuð finnur hún auða íbúð og ætlar að setjast þar að. Stuttu síðar sjáum við ljóshærða konu, Betty, lenda í Los Angeles í von um að ná frama sem leikkona í Hollywood. Leiðir þessara tveggja kvenna skarast þegar Betty gengur í nýju íbúðina sína og finnur dökkhærðu konuna í sturtu. Í ljós kemur að sú dökkhærða hefur tapað öllu langtímaminni sínu eftir bílslysið og Betty ákveður að aðstoða hana í leit sinni að sjálfri sér.

Ásamt þessum konum er fjöldinn allur af persónum sem virðast eiga að hafa varanlegt hlutverk í myndinni en koma svo aldrei aftur fyrir. Ein undantekning er dökkhærður leikstjóri sem við sjáum á fundi með vafasömum en valdamiklum mönnum sem vilja troða óþekktri leikkonu í nýjustu myndina hans. Þessi leikstjóri á síðar eftir að tengjast konunum tveimur en óljóst er hvort sú tenging gerist í draumaheimi þeirra eða raunveruleikanum. Dæmi um aðra "aukaleikara" er dularfullur leigumorðingi, tvær rannsóknarlöggur sem virðast klipptar úr bandarískum lögguþætti og ógnvekjandi róni sem gefur mönnum hjartaáfall.

Í upphafi hafði Lynch ætlað að gera sjónvarpsþátt um þetta efni og er myndin að stórum hluta byggð á því sem átti að vera upphafsþátturinn. Miðað við það sem gerðist í seinni þáttaröðinni af Twin Peaks er kannski bara gott að ekkert varð úr þessum þætti. Það er hins vegar greinilegt að margar persónur sem áttu að verða hluti af landslagi þáttanna voru klipptar út þegar þátturinn var gerður að bíómynd. Aðdáendur myndarinnar myndu segja að Lynch hefði tekist að breyta þessu í kost en ekki galla þar sem allar hálfkláruðu persónurnar og sögurnar sköpuðu heillandi andrúmsloft sem varð einkennandi fyrir myndina. Það voru samt vonbrigði fyrir mig þegar myndin var við það að klárast að það yrði ekki einu sinni gerð tilraun til að tjasla lausu endunum saman. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér hvort það væri í lagi fyrir leikstjóra að sleppa einfaldlega söguþræðinum og raða bara saman mörgum áhugaverðum atriðum og persónum og kalla útkomuna svo draumaveröld.

Nú hef ég ekkert byrjað að þreifa á hugsanlegri merkingu myndarinnar. Sumir hafa útskýrt söguþráðinn með því að raða atriðunum í öðruvísi röð og að líta á sumt sem einfalda drauma og annað ekki (mæli með þessari vefsíðu ef lesandi hefur áhuga á þessum pælingum). Þrátt fyrir þessa spurningu hvort myndin hafi einhverja merkingu er hún samt afskaplega flott. Hún er ekki á neinum tímapunkti leiðinleg og reynir aldrei á þolrifin eins og hin þriggja tíma Inland Empire. Sum atriðin eru svo alveg sérstaklega minnisstæð eins og hjá mafíósanum Mr. Roque og í hinum drungalega Club Silencio.

Þegar upp er staðið minnir myndin mig á vel samið popplag sem virðist sérstaklega djúpt á yfirborðinu en hefur svo enga merkingu þegar rýnt er í textann. Lynch finnst greinilega eins og textinn skipti ekki öllu máli.

Gott atriði úr Club Silencio.

1 comment:

  1. "Þegar upp er staðið minnir myndin mig á vel samið popplag sem virðist sérstaklega djúpt á yfirborðinu en hefur svo enga merkingu þegar rýnt er í textann." Einstaklega vel að orði komist og einfaldlega mjög góð lýsing á myndunum hans Lynch.

    Þú gleymdir Blue Velvet í upptalningunni efst í færslunni.

    Ég hafði talsvert gaman af Inland Empire, en mér fannst eyðileggja hana svolítið að hún skyldi öll vera tekin upp á lélegar vídjókamerur (Sony PD-150, sem var einmitt ein af kamerunum sem komu til greina þegar ég var að kaupa myndavél fyrir kvikmyndagerðina, hún var það ódýr!).

    Flott færsla. 9 stig.

    ReplyDelete