Wednesday, April 6, 2011

Man Bites Dog

Man Bites Dog er belgísk mockumentary um leigumorðingja sem hefst á því að ung kona er kyrkt til dauða á meðan tökumaðurinn tekur það aðgerðalaus upp. Þetta er aðeins byrjunin á blóðugri og andstyggilegri mynd í anda American Psycho sem sýnir líkin hrúgast upp á meðan morðinginn útskýrir muninn á því að drepa dverga og lítil börn. Ásamt því skýrir hann vafasöm viðhorf sín um kynþætti og kynhneigð manna ásamt dæmigerðri mannfyrirlitningu - en sýnir engu að síður einstaka gleði og stolt yfir starfi sínu.

Fyrir þessa mynd hafði ég séð nokkrar ofbeldisfullar myndir í svipuðum dúr (eins og A Clockwork Orange og Natural Born Killers) en þessi kvikmynd gekk hins vegar skrefinu lengra. Ég átti erfitt með að horfa á mörg atriðin í gegn þar sem gamlar konur og börn voru myrt á langdreginn hátt með einhvern einstaklega svartan húmor í huga. Á einhverjum tímapunkti verður ofbeldið svo yfirgengilegt að það er nánast súrralískt en samt fannst mér sum atriði svo erfið áhorfs að ég spólaði næstum yfir þau.

Markmiðið hjá leikstjórarnum var sjálfsagt eins og hjá Oliver Stone síðar í NBK; að sýna fram á hvernig áhorfendur eru heillaðir af ofbeldi. Það er reynt að vekja athygli manns á hlutverki tökuliðsins og hvernig þau breytast frá því að vera hlutlausir áhorfendir í þátttakendur í morðunum. Hugmyndin er að nútímafjölmiðlar séu dálítið svipaðir þessu þar sem þeir taka upp stríðsátök og hermdarverk án nokkurrar löngunar til að grípa inn í. Ásamt þessu er líka reynt að gefa í skyn að áhorfandinn beri einhverja ábyrgð á þessu ofbeldi bara með því að horfa á myndina. Það er satt að við höfum mörg mikinn áhuga á að lesa nákvæmar greinar um ofbeldisverk og árásir. Með þessu nær leikstjórinn að gagnrýna áhorfendur án þess að segja neitt ákveðið.

Þótt myndin sé flokkuð sem svört gamanmynd þá er ekkert sem vekur hlátur hjá áhorfandanum við áhorfið og því er þessi stimpill kannski frekar vafasamur. Þótt myndin komi skilaboðunum vel á framfæri held ég að það sé hægt að gera það líka án þess að ganga jafn hart fram af áhorfendum og er óneitanlega gert í þessari mynd. Þess vegna held ég að Natural Born Killers sé ekki verra verk ef maður vill horfa á gagnrýni á ofbeldisdýrkun nútímafólks.


Trailer myndarinnar

1 comment: