Wednesday, April 6, 2011

Kvikmyndagerð 2010-2011

Beðið var um að lýsa áfanganum og gefa stutta umsögn.

Áður en ég skráði mig í kvikmyndagerð vissi ég lítið við hverju var að búast. Fljótlega kom í ljóst að um var að ræða gífurlega metnaðarfulla valgrein og þegar upp er staðið hugsa ég að ég hafi næstum notað meiri tíma í að læra fyrir kvikmyndagerð heldur en t.d. stærðfræði sem á að heita stærsta greinin á brautinni minni. Ég sé ekki eftir því að hafa valið áfangann en það kom þó fyrir nokkrum sinnum í vetur.

Myndirnar þrjár sem við gerðum kostuðu allar gríðarlega mikinn tíma og orku - og þá sérstaklega heimildamyndin sem tók heilu dagana (ásamt einum erfiðasta all-nighter í skólagöngunni minni). Þá hef ég ekki minnst á sjálft kvikmyndabloggið en það líktist því að þurfa að skrifa eins og tvær ritgerðir á mánuði. Fyrir utan þetta þá voru mýmörg smáverkefni og kvikmyndasýningar sem maður þurfti að sækja. Mér finnst kvikmyndagerð vera heillandi grein og þetta var oft mjög skemmtilegt (bestu minningarnar í faginu voru tökurnar á maraþonmyndinni í byrjun vetrar þegar námsálag í öðrum fögum var ennþá lítið). Hins vegar varð maður stundum mjög þreyttur á allri þessari vinnu seinna meir. Á köflum fannst mér eins og ég væri kominn af Eðlisfræðibraut II yfir á Kvikmyndabraut II.

Það sem þyrfti líklega að breyta væri að minnka bloggkröfuna um nokkur stig. Tuttugu stig eru að mínu mati of mikið fyrir einn mánuð þegar verkefnaálagið er í þessum dúr (það var mjög slæmt þegar maður hafði ekki tíma til að reikna heima út af blogginu). Ég er hrifinn af þeirri hugmynd að gefa stig fyrir komment á færslur annarra. Hvað varðar stuttmyndirnar sjálfar þá hef ég fáar uppástungur að breytingum, ég er sammála að þær séu nauðsynlegar og mér finnst ekki eins og þú þurfir að vera harðari á skiladögunum. Hugsanlega væri betra ef þú sæir um að koma græjunum á milli hópa, það myndi a.m.k. minnka líkurnar á að hlutirnir týndust. Röðunina á efninu í vetur var fín en ég held það væri betra ef vinnan í kringum lokaverkefnið hæfist fyrr svo þetta væri ekki svona nálægt stúdentsprófunum (t.d. að hafa skiladag í byrjun mars).

Að öðru leyti var þetta ósköp ánægjulegur vetur og ég vona að ég geti nýtt mér námið að einhverju leyti í framtíðinni.

1 comment:

  1. Takk fyrir fínar ábendingar. 10 stig.

    Ég gæti vel hugsað mér að endurskoða bloggstigin, en þó frekar með það í huga að það sé hægt að fá stig fyrir fleira en bara að blogga, í stað þess að fækka stigunum.

    Ætlunin er auðvitað ekki að drekkja öllum hinum fögunum, en það má ekki gleyma því að kvikmyndagerðin er 6 einingar, ekki nema einni einingu minni en stærðfræðin...

    ReplyDelete