Monday, January 31, 2011

Tími og tilviljun

Eftirfarandi færsla er stutt hugleiðing um greinina No coincidence, no story eftir David Bordwell.

Tilviljun?
Í greininni sem er til umfjöllunar er fjallað um áhrif tilviljana á söguþráð kvikmynda og tegunda af skáldskap. Taldar eru upp kvikmyndir af öllum tegundum (bæði annars flokks verk og verðlaunamyndir) sem eiga það sameiginlegt að nota áhrif tilviljanna á einum stað eða öðrum. Höfundur veltir í kjölfarið fyrir sér hvers vegna svona margar kvikmyndir nota tilviljanir og ólíklegar atburðarásir til þess að þoka söguþræðinum áfram, hvenær það er réttlætanlegt og hvers vegna það er oft litið niður á svoleiðis taktík. Í lokin minnist höfundur svo á leiðir til þess að láta tilviljanir hljóma trúverðugri gagnvart áhorfendum og hvernig hin svokölluðu örlög geta einnig gegnt veigamiklu hlutverki.

Eitt stærsta atriðið sem kemur fram í pistli Bordwells er að orsakatengsl í söguþræði eru nauðsynleg fyrir áhorfandann til þess að hann geti áætlað hvað gerist næst. Að öðrum kosti minnkar hluttekning áhorfandans með persónum myndarinnar og áhuginn á myndinni sjálfri minnkar. Einnig tekur hann fram að ef orsakatengsl eru fjarlægð algerlega og allur söguþráðurinn samanstendur af tilviljanakenndum atburðum stendur ekki eftir nein saga og þar af leiðandi ekki nein kvikmynd (sbr. nafn pistilsins). Þetta hljómar mjög rökrétt hjá höfundi og því leiðir að handritshöfundar verða að takmarka sig ef þeir ætla að nota tilviljanir á einhverjum tímapunkti. [Ath. þetta á ekki við um Monty Python.]

And now for something completely different!
Annað atriði sem mér fannst áhugavert er að það skiptir máli á hvaða tímapunkti tilviljunin kemur fram. Ef tilviljanir eru notaðar til þess að leysa þær hindranir sem aðalpersónan hefur þurft að glíma við eru áhorfendur síður líklegir til þess að fyrirgefa það. Hér held ég að höfundur sé að tala um deus ex machina þótt hann noti að vísu ekki þetta hugtak í pistlinum. Aftur á móti eru tilviljanir ásættanlegar þegar þær eru notaðar í byrjun myndar til að koma af stað átökum, eða þegar þær hafa verið vandlega undirbúnar. Dæmi um það er þegar tvær manneskjur hittast af tilviljun. Ef miklu púðri er eitt í að sýna manneskjurnar sitt í hvoru lagi áður en hittingurinn á sér stað þá lítur út fyrir að það sé eðlilegt að brautir þeirra skyldu skerast. Ef manneskjurnar hittast hins vegar skyndilega og án þess háttar undirbúnings þá getur myndin virkað óraunsærri fyrir vikið, jafnvel þótt viðburðurinn sé jafn ólíklegur í bæði skiptin.

Of all the gin joints, in all the towns, in all the world ...
 
Bordwell bendir einnig á eina snjalla aðferð til þess að lágmarka skaðann af því að beita áhrifum tilviljunarinnar. Ef einhver persóna í myndinni minnist á hversu ólíklegir atburðirnir voru þá eru áhorfendur líklegri til þess að samþykkja það. Frábært dæmi um þetta er í Casablanca (sjá mynd). Rómantískar myndir hafa líka fundið leið til þess að afsaka tilviljanir, þ.e. að benda á að örlögin hljóti einfaldlega að hafa haft hönd í bagga.

Umfjöllun Bordwells um þetta efni er langt frá því að vera tæmandi og í raun snertir hann áðeins toppinn á ísjakanum í pistli sínum. Þetta virðist þó vera áhugavert viðfangsefni sem hægt væri að skrifa langar ritgerðir um.

Sunday, January 30, 2011

Svefnleysi

Hin upprunalega Insomnia er norsk kvikmynd frá 1997 sem fjallar um morðrannsókn í þorpinu Tromsø fyrir norðan heimskautsbaug. 17 ára stelpa er myrt og sænski sérfræðingurinn Jonas Engström er kallaður til ásamt norskum félaga sínum. Jonas er ekki vanur að vinna í miðnætursólinni og þjáist af algjöru svefnleysi. Í kjölfarið verða honum á hrikaleg mistök; hann skýtur norska kollega sinn í brjóstið og notar morðingjann sem blóraböggul. Þetta reynist erfitt þar sem morðinginn veit hvað gerðist, Jonas til mikilla óþæginda.

Jonas Engström
Eitt af helstu markmiðum leikstjórans var að skapa neo-noir mynd með ljós í staðinn fyrir myrkur sem aðaldriftkraft sögunnar. Þetta gekk algjörlega upp. Sjálfum fannst mér söguþráður myndarinnar fyrirfram hljóma mjög áhugaverður en það sem gerði myndina frábæra var túlkun Stellan Skarsgård1 á Jonas. Honum tókst vel að leika mann sem er að fara yfir um á mjög lúmskan hátt.

Þegar Insomnia kom út heillaði hún kvikmyndaheiminn svo mikið að fimm árum síðar var hún endurgerð af engum öðrum en Christopher Nolan (með Al Pacino og Robin Williams í aðalhlutverkum!) Endurgerðin gerist í Alaska en er svipuð og sú upprunalega fyrir utan einn grundvallarmun; í upprunalegu myndinni er aðalpersónan Jonas vond manneskja í gegn og algjör andhetja en í endurgerðinni er hann (Al Pacino) hins vegar góð manneskja í grunninn sem leiðist út í vonlausar aðstæður. Kannski var litið á þetta sem nauðsynlega breytingu til að ná til stærri markaðar áhorfenda.


Ég er venjulega ekkert hrifnari af bíómyndum sem koma frá öðrum stöðum en Hollywood. Hvað varðar Insomnia og endurgerðina var eitthvað öðruvísi. Í Hollywood útgáfunni var Al Pacino auðvitað fagmannlegur eins og alltaf en sænski leikarinn lék þetta á allt öðruvísi hátt (og að mínu mati var hann betri). Áhrif svefnleysisins voru ekki jafn augljós á honum og persónan virkaði á yfirborðinu í góðu ástandi, hann hækkaði aldrei róminn og var mjög yfirvegaður alla myndina. Samt sást greinilega að eitthvað var ekki í lagi hjá honum. Mér leist illa á marga aðra hluti í bandarísku úgáfunni, handritið og persónurnar voru margar miklu klisjukenndari. Þegar maður hugsar um myndina eftir á án þess að bera saman við norsku útgáfuna þá stendur ósköp lítið eftir í raun og veru - þótt það hafi samt ekki neitt verið beinlínis að myndinni. Þetta átti allavega alls ekki neitt skylt við neina neo-noir mynd eins og upphaflega myndin.

Creepy!
Auðvitað var endurgerðin samt mjög flott mynd enda big-budget verk með fyrsta flokks kvikmyndastjörnum. Það er samt bara eitt atriði sem mér finnst að hún hafi klárlega fram yfir þá upprunalegu; morðinginn í bandarísku (Robin Williams) er óhugnalegri og meira hrollvekjandi en í þeirri norsku. Þetta er kannski vegna þess hversu kunnuglegur Robin Williams er áhorfendum og það hefur líka áhrif að sjá hann í svona óvenjulegu hlutverki.2 Fæstir kannast hins vegar við norska leikarann (allavega ekki ég) og hann fær ekki svo margar mínútur á skjánum til að sanna sig hvort eð er.

Eftir stendur að hin upprunalega Insomnia er mjög áhugavert verk sem ég mæli með á meðan endurgerðin er ekki jafn spennandi og kannski frekar fyrir hörðustu aðdáendur Christopher Nolan.

Trailer fyrir 1997 útgáfuna:



1   Þessi Skarsgård hefur líka leikið í Hollywood, ég sá á imdb að hann lék líka t.d. einhvern prófessor í Good Will Hunting þótt ég muni reyndar ekkert eftir honum.
2   Á þessum tíma var Robin Williams að fikra sig áfram í óvenjulegum hlutverkum, sbr. floppið Death to Smoochy sem kom út sama ár.

Friday, December 3, 2010

National Lampoon's Christmas Vacation

Griswold fjölskyldan
National Lampoon's Christmas Vacation (eða Jólafjör í ömurlegri þýðingu imdb) er gamanmynd frá 1989 sem fjallar um tilraunir hins ástkæra eiginmanns Clark Griswold til þess að fagna jólunum með fjölskyldu sinni. Á einhvern hátt tekst honum hins vegar að klúðra öllu sem hægt er að klúðra, þar með talið að læsa sig uppi á háalofti, sprengja upp jólaskrautið, detta af þakinu og fá sérsveit lögreglunnar í heimsókn á sjálfan jóladag. Þrátt fyrir allt þetta tekst honum að halda sér gangandi, vitandi það að jólabónusinn - sem mun bjarga jólunum - er á leiðinni.

Einn af mest heillandi þáttunum við myndina eru allar litríkar persónurnar, þ.e.a.s. fjarskyldir ættingjar Griswold-fjölskyldunnar sem koma og heimsækja hana um jólin. Fyrir utan Randy Quaid sem er frábær í hlutverki bróðurs Eddie (hann lék einnig í National Lampoon's Vacation) inniheldur myndin heilan helling af litríkum karakterum, eins og til dæmis skrítnu tengdaforeldrasettin og allir furðulegu frændurnir og frænkurnar.

Bræðurnir
Myndin var fyrsta tilraun leikstjórans Jeremiah Chechik til þess að gera kvikmynd í fullri lengd en áður hafði hann bara unnið við auglýsingar. Roger Ebert, sem er ekki aðdáandi myndarinnar, skrifar í ritdómi að kannski sé hann ástæðan fyrir því að myndin var ekki svo góð. Ég tók hins vegar ekkert eftir lélegri leikstjórn en á hinn bóginn var ég aldrei mikið að spá í söguþræðinum. Það eru svo mörg góð atriði í myndinni að þrátt fyrir að þau tengist kannski ekki alltaf á alveg rökréttan hátt þá gleymist það fljótt í gamanmynd af þessu tagi.

Christmas Vacation er kannski svolítið klisjukennd bíómynd og örugglega ekki sú besta sinnar tegundar. Þrátt fyrir það er þetta ein af mínum uppáhalds gamanmyndum. Á tímabili horfði ég á hana fyrir hver einustu jól með systur minni og fannst hún alltaf jafn fyndin í hvert skipti. Ég er eiginlega orðinn hálf spenntur að kíkja á hana aftur núna fyrir þessi jól.

Mjög gott atriði úr myndinni:

Fyrstu myndir Kubricks

Jólin 2008 keypti ég kvikmyndapakka með þremur af fyrstu myndum leikstjórans Stanleys Kubricks. Þetta eru myndirnar Killer's Kiss, The Killing og Paths of Glory. Þrátt fyrir að að þær séu allar gamlar og svarthvítar fannst mér þær alls ekki svo leiðinlegar, samanborið við t.d. hina þriggja tíma Barry Lyndon (sem var samt ekki svo slæm).

Söguhetjan er til vinstri
Killer's Kiss er film noir frá 1955 sem fjallar um boxarann Davey sem er að ljúka ferlinum og samband hans við nágrannastúlku sína. Eitthvert kvöld þegar Davey er að fara að sofa heyrir hann öskur úr íbúð stúlkunnar. Þar sem hann lítur inn til þeirra um opinn glugga sér hann karlmann reyna að nauðga henni. Davey hleypur inn til þess að verja hana en þá er maðurinn stunginn af. Það sem eftir er af myndinni fjallar um samband stúlkunnar við Davey og tilraunir nauðgarans til þess að eyðileggja fyrir parinu.
Þessi kona lék ekki í mörgu fleiru

Þessi mynd er í raun fyrsta kvikmynd Kubricks ef litið er hjá verkinu Fear and Desire sem Kubrick dró snemma úr umferð og er erfitt að nálgast í dag. Áður en Kubrick hóf feril sinn sem kvikmyndagerðarmaður hafði hann unnið sem ljósmyndari hjá tímariti. Sumir gagnrýnendur þykjast sjá þetta í Killer's Kiss, m.a. vegna margra atriða sem eru skotin frá áhugaverðum sjónarhornum en eru samt alltof statísk. Myndin er frekar stutt, aðeins rétt yfir klukkutími, og sýnir vel merki að Kubrick, sem skrifaði, framleiddi og leikstýrði myndinni, er frekar óreyndur. Hún er samt langt frá því að vera viðvaningslega gerð, sérstaklega ef litið er til þess að Kubrick hafði slappa leikara, fáa aðstoðarmenn, aðeins réttindi að þremur lögum og lítið fjármagn.

Þetta er mynd sem væri líklega löngu gleymd ef hún væri ekki eftir jafn þekktan leikstjóra. Þótt hún geri ekki neitt annað veitir hún áhorfendum innsýn inn í leikstjórann Kubrick og hvernig fyrstu myndir svoleiðis snillings líta út.

Davey flýr undan nauðgaranum. Kubrick hafði líklega ekki efni á tónlist fyrir þetta atriði en mér finnst það samt heppnast ágætlega.



Þjófarnir leggja á ráðin
The Killing frá 1956 er öllu þekktari heldur en fyrri myndin sem ég fjallaði um. Ásamt því að vera film noir er þetta dæmigerð caper movie sem fjallar um hóp manna sem ætla að ræna veðhlaupasal og stinga af með 2 milljónir dollara. Eins og venjulega í myndum af þessari gerð fer eitthvað úrskeiðis og á endanum fer allt úr handaskolunum.

Ólíkt Killer's Kiss þá var þessi mynd ekki framleidd af Kubrick. Þar sem hann kom hér nýr inn á sjónarsviðið hafði hann ekki algjört listrænt vald yfir myndinni eins og í flestum öðrum verkum sínum. Hann varð því að sætta sig við að láta alvitran sögumann lesa yfir sumum atriðum sem seinni tíma gagnrýnendur hafa ekki verið hrifnir af. Engu að síður hlaut myndin þokkalega dóma þegar hún kom út og hefur að mestu leyti elst vel. The Killing hefur verið innblástur fyrir fjöldann allan af myndum og er þá helst að nefna Reservoir Dogs eftir Tarantino.

Upphaflegt handrit af myndinni var að mestu leyti skrifað af glæpasagnahöfundinum Jim Thompson. Þrátt fyrir það eignaði Kubrick sér heiðurinn að handritinu einhverra hluta vegna. Það veit enginn af hverju en mér dettur í hug að Kubrick hafi kannski bara alltaf átt erfitt með að vinna með handritshöfundum, sbr. rifrildið sem hann átti við í tengslum við Full Metal Jacket (þegar hann hreinlega rak manninn sem skrifaði bókina).

Þrátt fyrir allt mistókst myndinni að hala inn pening fyrir kvikmyndaverið. Einmitt þess vegna finnst mér hálf óskiljanlegt af hverju Kubrick fékk svona mörg tækifæri til þess að leikstýra risastórum verk í framtíðinni eins og t.d. Paths of Glory sem kom út aðeins ári síðar. Það er í raun gríðarlega sjaldgæft að menn fái tækifæri til þess að bæði leikstýra margmilljón dollara verkum ásamt því að hafa svo mikið listrænt frelsi að geta gert það sem þeir vilja. Í raun held ég að þetta sé það sem gerði Kubrick einstakan sem leikstjóra.

Trailer fyrir myndina:



Að lokum ætlaði ég að tala um Paths of Glory. Í þessari mynd fékk Kubrick að vinna með stjörnunni Kirk Douglas ásamt því að fá tækifæri til þess að nota mjög mikið fjármagn. Það má segja að þessi mynd hafi verið sú sem gerði Kubrick loksins að alvarlegum kvikmyndagerðarmanni.

Myndin gerist í fyrri heimstyrjöldinni og fjallar um franska hersveit sem neitar að taka þátt í vonlausri árás sem væri vís til þess að drepa flesta hermennina. Yfirmenn hersins eru að vonum illir yfir þessu og til refsingar fyrir hugleysið velja þeir af handahófi hermenn sem þeir ætla að dæma til aftöku. Ofurstinn Dax (Kirk Douglas) áttar sig á óréttlætinu við þessa ákvörðun og tekur að sér að verja hermennina í sýndarréttarhöldum.

Ég las að eitt af þekktustu stílbrögðum Kubricks, hin svokölluðu tracking shots, hefðu fyrst komið fram í þessari mynd. Hér má sjá dæmi um þetta:



Um leið og ég sá þetta mundi ég eftir atriðinu úr Clockwork Orange þar sem Alex gengur inn í plötubúðina. Ég fann ekki gott myndband af þessu á YouTube en þetta hérna sýnir nokkurn veginn hvað ég er að tala um:

http://www.youtube.com/watch?v=mfPyTiUi_Uk
(sekúndur 00:10-00:45)

Leikurinn hjá Kirk Douglas gerði þessa mynd að því stórvirki sem hún var. Í fyrrum myndum Kubricks hafði hann ekki haft aðgengi að leikurum eins og Kirk og þess vegna er ekkert skrítið að Kubrick hafi fyrst slegið verulega í gegn hérna. Svipbrigði Kirk sýna alltaf fullkomnlega tilfinningar persónu hans án þess að hann gangi of langt. Annað frábært atriði við þessa mynd var endirinn sem lýkur á lagi sem tekst á svo sannfærandi hátt að breyta tilfinningum hermannanna:



Að lokum mæli ég með þessari verðlaunaræðu frá Kubrick sem ég rakst á þegar ég var að leita að efni á YouTube. Það er ekki oft sem maður heyrir Kubrick tala um kvikmyndagerð.

High Noon

Í tíma um daginn sýndi Siggi kennari atriði úr kvikmyndinni High Noon þar sem klukkur voru í aðalhlutverki. Siggi sagði að þetta væri sjaldgæf leið til þess að byggja upp spennu í kvikmynd, m.a. vegna þess hve erfitt væri að nota klukkur í klippingu. Mér fannst þetta áhugavert og þegar ég sá hvað hvað myndin hefur hlotið góða dóma ákvað að kíkja á hana um síðustu helgi.

Will Kane (Gary Cooper) að gifta sig
High Noon er vestri sem fjallar um fógetann Will Kane sem býr í litlu smáþorpi í New Mexico. Sama dag og Will ætlar að gifta sig og leggja skóna á hilluna fréttir hann að gamall óvinur, Frank Miller, hafi verið náðaður úr fangelsi, sé á leið í bæinn og leiti hefnda. Við þessar fréttir skapast togstreita hjá Will. Ætti hann að yfirgefa þorpið og forða eigin skinni eða eiga á hættu að vera myrtur?

Allir íbúar þorpsins, jafnvel eiginkonan Wills, ráðleggja honum að flýja. Will finnst hins vegar á honum sé ekki stætt á öðru en að vera hugrakkur og mæta Miller. Hann ákveður því að leita stuðnings eins margra félaga sinna
Will grætur. Sjaldséð í vestrum!
og hann getur og vera viðbúinn því þegar Miller kemur í þorpið með hádegislestinni. Hins vegar kemur smátt og smátt í ljós að þorpið samanstendur af heiglum sem eru ekki tilbúnir að verja gamla fógetann sinn. Með hverri mínútu sem líður styttist í komu Miller og örvænting Franks eykst. Andrúmsloftið verður enn spennuríkara með því að sýna tifandi klukkur við hvert tækifæri, eins og ég minntist á áðan.

Will einn og yfirgefinn
High Noon (eða Um hádegi eins og hún heitir á imdb) hefur verið túlkuð sem táknsaga fyrir McCarthy-tímabilið þar sem leikstjórar og handritshöfundar í Hollywood mættu ásökunum, ímynduðum eða raunverulegum, um að vera kommúnistar eða tengjast sovéska kommúnistaflokknum á einhvern hátt. Þannig táknuðu íbúar þorpsins þá sem vitnuðu fyrir HUAC (nefnd sem hafði eftirlit með óamerískri starfsemi) og sviku kollega sína í Hollywood. Einnig hefur verið litið svo á myndina sem táknsögu fyrir þátttöku Bandaríkjana í Kóreustríðinu, sem mér finnst aðeins leiðinlegri kenning.

Uppáhaldsmynd Bill Clintons
Þrátt fyrir að í dag sé víða litið á High Noon sem einn besta vestra allra tíma braut myndin nokkrar venjur þessa tíma þegar hún kom út. Það var til dæmis óvenjulegt að sýna hetjuna í svörtu. Lokaatriðið - þar sem Will grýtir tinstjörnunni sinni í moldina og rýkur úr bænum - þótti sumum, eins og t.d. John Wayne, óamerískt, enda fyrirleit hann High Noon og gerði í staðinn Rio Bravo, sem var svar hans gegn þessari mynd og fjallaði um fógeta sem hafnaði allri hjálp. Myndin mætti einnig gagnrýni frá kommúnistaöflum í Sovetríkjunum, sem fannst hún upphefja einstaklinginn. Með tíð og tíma hafa þessar gagnrýnisraddir orðið sjaldgæfari enda hefur hún hlotið lof frá flestum vængjum stjórnmálanna (t.d. lofaði Ronald Reagan myndina þrátt fyrir að vera mikill anti-kommúnisti).

Eitt stílbragð sem mér fannst áhugavert var að láta hana gerast á um það bil rauntíma, þ.e.as. að mínúta á skjánum jafngildir mínútu hjá áhorfendum. Þrátt fyrir bæði það og að lítið er um bardagaatriði í myndinni (sérstaklega fyrir vestra) fyrir utan síðustu 15 mínúturnar þá er myndin aldrei leiðinleg heldur nær að halda upp mikilli spennu allan tímann. Kannski er það bara út af öllum tifandi klukkunum!

Myndin hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta lagið. Það var spilað mjög oft í myndinni. Hér má hlusta á það:

Thursday, December 2, 2010

Garden State

Fyrir nokkrum vikum var fjallað stuttlega um kvikmyndir með óvirkum aðalpersónum. Siggi kennari sagði eitthvað í þeim dúr að erfitt væri að gera slíkar myndir en gott dæmi væri samt kvikmyndin Garden State frá 2004. Þar sem ég átti myndina á diski kíkti ég á hana um daginn.

Andrew Largman (kallaður Large) er ungur maður sem býr einn í íbúð í Los Angeles. Við sjáum strax að strákurinn er hálfgert tilfelli enda virkar hann sinnulaus um allt. Þegar pabbi Large hringir einn daginn og segir honum að móðir hans hafi drukknað í baði lætur Large sér fátt um finnast. Hann ákveður þó að taka flugið heim til New Jersey til þess að mæta í jarðarför móður sinnar.

Áhorfendur komast fljótlega að því að ástand Large á sér skýringar. Þegar hann var níu ára strákur henti hann móður sinni óvart á þvottavél sem ollli því að hún varð lömuð fyrir neðan háls fyrir lífstíð. Faðir Large kenndi syni sínum alla tíð um slysið og notfærði sér stöðu sína sem læknir til þess að setja strákinn á líthíum-kúrs. Sautján árum síðar tekur Large ennþá þessi lyf og finnur ekki fyrir neinum tilfinningum að eigin sögn, hvorki sársauka né vellíðan, aðeins stöðugum sljóleika.

Þegar Large fer aftur heim til New Jersey tekur líf hans breytingum. Hann skilur lyfin sín eftir í L.A. og í jarðarförinni hittir hann gömlu vini síni aftur. Loksins kynnist hann svo stúlku og myndin tekur stefnu sem flestir ættu að kannast við.

Garden State var fyrsta kvikmynd leikstjórans Zach Braff (sem er þekktast fyrir leik sinn í þáttunum Scrubs) sem lék einnig aðalhlutverkið. Myndin hlaut nokkuð góða dóma þegar hún kom út og hefur verið borin saman við The Graduate (sem var líka þroskasaga passívrar söguhetju) og The Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Myndin er samt alls ekki fullkomin og mér fannst eins og hún lofaði meiru í byrjun, en félli svo í einhverja formúlu eftir því sem leið á myndina.

Það sem mér fannst best við myndina voru öll litlu smáatriðin eða "visual gags" sem komu fram víða, t.d. diplóman sem var hengd upp á loftið hjá lækninum eða að liturinn á skyrtu Large skyldi passa við veggfóðrið (sjá dæmi í myndum). Þótt myndin væri að mestu leyti dramatísk þá lyftu öll þessari atriði myndinni upp, þetta minnti svolítið á Srubs.

Sumir gagnrýnendur gagnrýndu myndina fyrir að vera klisjukennd á köflum og fyrir að færa fátt nýtt fram á sjónarsviðið. Þessi viðhorf eru skiljanleg. Þrátt fyrir allt finnst mér örlítið dapurlegt að Zach skuli ekki hafa leikstýrt fleirum myndum enda lofaði þessi mynd mjög góðu upp á framhaldið.

Gervitrailer fyrir myndina sem mér fannst mjög fyndinn:

Sunday, November 7, 2010

Kettir Mirikitani

Mirikitani (til vinstri) og Hattendorf
The Cats of Mirikitani er heimildarmynd sem fjallar um kynni leikstjórans Lindu Hattendorf af áttræðum listamanni, Jimmy Mirikitani, sem sefur á götunni í New York. Hattendorf býr nálægt Mirikitani og hittast þau af og til frá ársbyrjun 2001. Breyting verður á vinskap þeirra í september þetta sama ár, ráðist er á tvíburaturnana nokkrum húsaröðum frá og í kjölfarið býður leikstjórinn manninum að búa í íbúðinni sinni. Í framhaldi af þessu fá áhorfendur tækifæri til þess að kynnast ótrúlegri sögu hins aldraða listmanns.

Í ljós kemur að ævi Mirikitani er hrikaleg harmsaga. Eftir að hafa fæðst í Kaliforníu flutti hann til Hiroshima, sem var borg ættingja hans, en átján ára gamall flýgur hann aftur til Bandaríkjanna ásamt systur sinni í von um að slá í gegn sem listamaður. Í kjölfar árásar Japana á Pearl Harbor er Mirikitani neyddur í búðir fyrir Japani, sviptur ríkisborgararétt sínum og klippt á samband hans
Teikning Mirikitani af kyrrsetningarbúðunum
við systur sína. Til að eyðileggja líf Mirikitani enn frekar er Hiroshima sprengd í loft upp ásamt flestum ættingjum hans. Að seinna stríði loknu tekur við erfitt líf þar sem Mirikitani vinnur fyrir sér í ólíkum störfum (meðal annars sem einkakokkur Jackson Pollock) áður en hann endar á götunni eins og við sjáum hann í upphafi myndarinnar.

Í raun er myndin hálfgerð þroskasaga sem er merkilegt því aðalpersónan er 80 ára manneskja. Við sjáum samt sem áður gríðarlegar breytingar á manninum; í byrjun myndarinnar er Mirikitani vonlaus flækingur sem virðist aldrei munu ná sambandi við neinn. Í lokin er hann hins vegar búinn að ná fótfestu sem listamaður (og kennari á eigin námskeiði), ásamt því að hafa loksins náð að gera upp fortíð sína.Þessu öllu náði maðurinn með því að gefa ekki upp á bátinn drauma sína uum listina. Boðskapur myndarinnar um að gefast ekki upp nær samt til allra áhorfenda myndarinnar hvort sem þeir eru listamenn eða ekki.

Það sem mér fannst einna merkilegast við myndina er hversu tilviljanakennd atburðarásin er. Þegar Hattendorf ákvað fyrst að festa Mirikitani á filmu óraði hana ekki fyrir að Mirikitani hefði einhverja sögu að segja eða að um væri að ræða einhvers konar efnivið í kvikmynd. Smám saman tók leikstjórinn ástfóstri við manninn; ásamt því að hjálpa honum að finna íbúð og koma honum inn í velferðarkerfið tókst henni að kynna umheiminum fyrir list hans. Það var mjög heppilegt að til væru upptökur af fyrstu fundum leikstjórans og Mirikitani því annars hefði verið ómögulegt að gera þessa mynd.


Annað áhugavert atriði var hvernig hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin voru tvinnaðar inn í myndina. Þegar greint var frá aukinni andúð Bandaríkjamanna í garð araba virtist Mirikitani
Mynd frá 89 ára afmæli hans í fyrra
endurupplifa fortíð sína, honum fannst eins og enn og aftur væri verið að sýna ástæðulausa þröngsýni í garð útlendinga eins og í seinni heimsstyrjöld. Þetta atriði var algjört aukaatriði í myndinni sem heppnaðist samt vel.

Þegar ég hafði lokið við að horfa á þessa mynd langaði mig strax að vita hvort Mirikitani væri enn á lífi og hvernig ferill hans líti út í dag. Ég sá ekki annað en að maðurinn (sem er 90 ára) lifði enn góðu lífi og að sýningar á verkum hans væru opnaðar af og til. Ég ætla að ljúka þessum pistli með myndum af nokkrum verkum hans: